Mörg rök hníga að endurbyggingu

Hugmynd kollega míns um að fá erlendan arkitekt til að hanna mannvirki í miðborg Reykjavíkur er í sjálfu sér ekki svo galinn. Allir hafa gott af samkeppni, það á líka við um arkitekta. En hvers vegna endilega á horni Lækjargötu og Austurstrætis?

Reykjavík er langt frá því að verða fullbyggð borg. Í sannleika sagt eru auðar lóðir ásamt bílastæða-víðáttum eitt aðal einkenni höfuðborgarinnar. Auðar lóðir sem kalla á uppbyggingu standa í hrönnum víðs vegar í miðborginni. Það er orðið aðkallandi verkefni að klára reiti sem alltof lengi hafa öskrað á uppbyggingu. Ég nefni sem dæmi: vestari hluta Skuggahverfisins, svonefndan stjórnarráðsreit, reitinn fyrir neðan Arnarhól þar sem einu sinni var blómleg byggð en hefur að undanförnu verið nefndur Landsbankareitur, ég vil einnig nefna reitinn á milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis svonefndan Alþingisreit ásamt stórum auðnum á efri hluta Hverfisgötu, ótal reitir á Laugaveginum sem reyndar er byggðir en hefur þegar verið gefið niðurrifsheimild á....... ég gæti lengi haldið áfram að telja.

Götumyndir sem eru fullkláraðar teljast vera fágæti í borginni okkar og jafnvel þótt að það sjáist í brunagafla í Austurstræti verður sú gata að teljast ein af þeim.

(Með nýbyggingum er alltaf tekin ákveðin áhætta,) það eru ótalmörg dæmin þar sem skipt hefur verið út betri götumynd fyrir verri götumynd þar sem nýbyggingar hafa risið inn í eldri byggð. Í tilviki Lækjartorgs tel ég þetta vera óþarfa áhættu, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi áðan, það er engin skortur á lóðum fyrir arkitekta að spreyta sig.

Átjándu aldar húsaröðin öll, þar með talið Hressingarskálinn er fágæti. Með uppbyggingu húsanna sem skemmdust í brunanum er tækifæri til þess að færa húsin öll í það horf sem beðið hefur verið eftir í fjöldamörg ár. Skilaboðin með þessu til eigenda menningarverðmæta í miðborginn væru einnig skýr, Reykvíkingar hafa fengið nóg af fasteignamógúlum sem sitja á perlum miðborgarinnar og bíða færis að fá að rífa og byggja stærra, og þeir myndu gera sér grein fyrir að það eina skynsamlega í stöðuni er að gera þau sómasamlega upp.

Þórður Magnússon


mbl.is Austurstræti 22 rifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband