Fréttatilkynning frá Torfusamtökunum

Laugavegur 4-6

Stjórn Torfusamtakanna harmar þá niðurstöðu Skipulagsráðs Reykjavíkur að heimila niðurrif tveggja elstu húsanna við Laugaveg, á lóðunum nr. 4 og 6, og samþykkja jafnframt nýbyggingu, sem vegna hæðar og umfangs, samrýmist ekki mælikvarða og götumynd þessa elsta hluta Laugavegar. Hægur vandi hefði verið að prjóna við gömlu húsin og tengja þau nýrri uppbyggingu á reitnum með farsælum hætti og sameiginlega hagsmuni götunnar að leiðarljósi.

Nýja byggingin er óheppilegt fordæmi fyrir þróun Laugavegarins. Hún mun standa í elsta hluta götunnar, milli Skólavörðustígs og Bergstaðastræti, þar sem enn má sjá einkenni 19. aldar í byggðinni. Vesturendi byggingarinnar tekur lítið tillit til friðaðs húss, Laugavegar 2, sem nýlega hefur verið gert upp til mikillar prýði fyrir miðborgina. Gert er ráð fyrir fjögurra hæða húsi sunnan götunnar, einmitt þar sem kaupmenn og allir aðrir hafa lagt áherslu á að halda byggðinni lágri vegna sólarljóss í götunni. Auðveldlega hefði mátt samræma sjónarmið verslunar og húsverndar, t.d. með því að lyfta gömlu húsunum um eina hæð og bæta undir þau vönduðu verslunarrými, eins og hefð er fyrir við þessa götu. Þannig hefði verið unnt að ná fram yfirlýstum markmiðum um að verndun og uppbygging haldist í hendur, Laugavegur eflist sem verslunargata, en jafnframt væri haldið í mælikvarða og sögulegt yfirbragð elsta huta hennar.

Stjórn Torfusamtakanna harmar það enn fremur hversu lítið hefur farið fyrir kynningu á sjálfri hönnun nýbyggingarinnar áður en heimild var veitt fyrir niðurrifi. Að mati samtakanna hafa borgaryfirvöld gert mikil mistök með því að leyfa allt of mikið byggingarmagn á þessum reit, meira en samhengið þolir.

Undirritað: Stjórn Torfusamtakanna

Snorri Freyr Hilmarsson

Pétur H. Ármannsson

Guðjón Friðriksson

Áshildur Haraldsdóttir

Þórður Magnússon

Laugavegur 4 og 6. Tillaga að uppbyggingu þar sem núverandi hús á lóðunum eru endurbætt og stækkuð með hliðsjón af upphaflegum stíl.  Undir timburhúsunum er sýnd ný götuhæð með verslunarrými sem uppfyllir nútíma kröfur um lofthæð og aðgengi.  Aftan við gömlu húsin gæti komið nýbygging sem tengdi þau saman og væri lítt eða ekki sýnileg frá götunni.


mbl.is Torfusamtökin harma niðurrif á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bogi Jónsson

Það er skelfilegt að sjá hvað Laugavegurinn er búin að missa af húsum undafarinn áratug og stefnir í  að enn fleiri hús fari og í staðin koma hús sem mér finnst alveg úr karakter  og minna á múrinn milli Palestínu og Ísraels, með þessu áframhaldi verður Laugavegurinn Jafn "aðlaðandi" og mjóddin.

kv Bogi

Bogi Jónsson, 21.8.2007 kl. 10:54

2 Smámynd: Torfusamtökin

Sæll Ragnar.

Hafðu samband við okkur, þú hefur kannski áhuga á að vera í leynilegum aðgerðahóp innan samtakanna?

Torfusamtökin , 21.8.2007 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband