13.1.2008 | 21:16
Er friðun andstaða framfara?
Þann 10. janúar sl. birti Fréttablaðið á forsíðu skoðanakönnun, þar sem fólk var spurt hvað ætti að gera við húsin að Laugavegi 4 og 6. Svona til að halda því til haga, þá vildu 30,9% aðspurðra láta byggja þar stórt og glæsilegt hótel. 41,5% vildu að reistar yrðu nýjar byggingar á lóðunum, þar sem umfang húsanna og útlit þeirra tæki betur mið af núverandi götumynd heldur áðurnefnt hótel og 27,6% vildu að húsin yrðu friðuð. Niðurstaðan gefur því til kynna að ekki virðist djúpur ágreiningur vera milli hinna tveggja síðarnefndu hópa hvað varðar hæð og umfang húsanna, en ólíkar skoðanir hinsvegar varðandi væntanlegt útlit þeirra.
En hér vaknar spurning.
Er það raunverulega svo að þau 41,5% Reykvíkinga sem vilja ný hús byggð samkvæmt nýjum teikningum kjósi að þau líti út með öðrum hætti, en þeim sem endurspeglar byggingarsögu borgarinnar á síðari hluta 19. aldar og kæri sig ekkert um að húsin við Laugaveg 4 og 6, geti útlitslega fallið í flokk með Aðalstræti 10, Geysishúsinu og Bernhöftstorfunni? Sorglegt ef satt er!!
Eða gæti það verið að einhverjir, innan þessa fyrrgreinda hóps, sjái húsin fyrir sér í því sem næst upprunalegri mynd, þar sem þó er unnið eftir nýjum teikningum og húsin aðlöguð nýju hlutverki? Getur verið að þeir hinir sömu séu hræddir við hugtakið friðun, hugtak sem búið er að menga allhressilega með því að tvinna það saman við hugtökin stöðnun og afturhald, og kjósi þar af leiðandi ekki að líta á sig sem friðunarsinna? Viðkomandi telur að með friðun sé verið að tryggja ömurlegt ástand þessara gömlu húsa við Laugaveg um ókomna tíð.
Hér er ekki um annað að ræða en grátlegan misskilning. Friðunarsinnar hafa engan áhuga á viðhalda núverandi ásýnd umræddra húsa. Friðunarsinnar hafa engan áhuga á stöðnun. Það sem þeir kjósa er gömlum húsum sé sýnd tilhlýðileg virðing ... og hvers vegna í ósköpunum ætti friðun, verndun og umhyggja fyrir hinu gamla að vera í einhverri mótsögn við framfarir?
Út um allan heim eru lagðar gríðarlegar fjárhæðir í verkefni er snúa að verndun, viðhaldi og endurbyggingu á hinu gamla. Hið fræga Parthenon á Akrópólis-hæð í Aþenu er eitt dæmi og Frúarkirkjan í Dresden er annað. Í mörgum borgum í Evrópu sem fóru illa út úr loftárásum í síðari heimstyrjöldinni hefur ógrynni fjár verið varið til endurbyggingar á merkum byggingum. Í einni fegustu borg veraldar Prag, er haldið fast í byggingararfinn. Sama á við um París og Flórens. Varla væri verið að standa í þessu, einungis í því augnamiði að tryggja algjöra stöðnun!!
Nei, þvert á móti, á þessum stöðum trúir fólk því að framtíðin byggist á fortíðinni. Fortíðin er aðlöguð kröfum framtíðarinnar, í stað þess að hún sé þurrkuð út. Og þessi nálgun á viðfangsefninu virðist virka því í dag þykja áðurnefndir staðir dásamlega fallegir og eru eftirsóknarverðir áfangastaðir fjölda ferðamanna.
Aftur til Íslands. Árið 1983 voru framfarasinnar á ferð í Aðalstrætinu, rifu Fjalaköttinn og núverandi húsnæði TM var byggt í staðinn. Klárlega höfðu Íslendingar ekkert að gera með elsta uppistandandi bíóhús í Evrópu. En í hverju fólust framfarirnar? Nú á dögum líta mjög margir á niðurrif Fjalakattarins sem meiriháttar menningarslys og þar hafi framfarasinnarnir stigið stórt skref afturábak. Fróðlegt væri að vita hvaða hlutverki þetta hús gengdi nú til dags, ef því hefði verið þyrmt og það lagfært með viðeigandi hætti. Það gæti til dæmis verið gott innlegg til kynningar á Reykjavík sem kvikmyndaborg, eins og góðir menn hafa lagt til, og veitt borginni sérstöðu umfram aðrar borgir!!
Og það sem meira er ... sérstaðan er framtíðin. Að hafa eitthvað fram að færa sem fáir eða engir aðrir geta boðið upp á. Þar gegnir byggingararfurinn veigamiklu hlutverki, því meðal annars þar liggur sérstaðan.
Að draga tönn úr fallegu brosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:26 | Facebook
Athugasemdir
Baráttan fyrir verndun gamalla húsa og bæjarhluta er umhvrfisvernd borgarsamfélgsins. Borgin er ekki síður er ekki síður gædd náttúru en óbyggðirnar. Ég fór í í dag frábæra göngu Hornstrandfara um Austurbæ Reykjavíkur og við skoðuðum vernduð hús með leiðsögn frá Pétri Ármannssyni. Húsin voru flest ættuð úr miðbæ Reykjavíkur og ég sá fyrir mér hvað gamli miðbærinn hefur verið fallegur meðan hann var og hét. Kannski getur Austurbærinn tekið við hlutverki hans ef þangað verða flutt nógu mörg hús og ef ekki verður meira skemmt þar en nú þegar. VERNDUM LAUGARDALINN.
Bergþóra Gísladóttir, 14.1.2008 kl. 00:48
Ég tel að almennt viti fólk ekki hvað það er að tala um,
er það segir: ,,rífa bara kofana". fólk hugsar ekki af víðsýni, heldur af þröngsýni,
sem er kannski eðlilegt með tilsjón af þeirri stefnu í uppbyggingar-málum
undanfarinna ára.
það versta við þessa stefnu, er að hún hefur læðst einhvernvegin að manni án
þess að maður kveikti á perunni, sem að sjálfsögðu er ófyrirgefanlegt.
Við verðum að vernda það sem eftir er. Það er nóg komið.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 14.1.2008 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.