26.3.2008 | 13:30
ÁLYKTUN
Torfusamtökin lýsa áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur í miðbæ Reykjavíkur að undanförnu. Sífellt fjölgar auðum húsum sem látin eru drabbast niður og verða þannig lýti á umhverfinu og skapa mikla eldhættu.
Þessi þróun er bein afleiðing af nýju deiliskipulagi miðbæjarins sem byggir á gamaldags viðhorfum til eldri byggðar. Samskonar þróun átti sér stað í fjölmörgum borgum vesturlanda á 7. og 8. áratug síðustu aldar oft með sorglegum afleiðingum. Eigendur fasteigna sáu sér þá hag í því að láta húsin vísvitandi drabbast niður og jafnvel hleypa þar inn útigangsfólki og skapa eldhættu með það að markmiði að þrýsta á um niðurrifsleyfi.
Ýmislegt bendir því miður til þess að sambærilegar aðferðir hafi verið að ryðja sér til rúms í Reykjavík. Töluverð ásókn er í húsnæði og byggingarrétt í miðbænum og í mörgum tilvikum hafa fasteignafélög lagt mikið á sig við að koma leigjendum úr húsum til þess eins að láta þau standa auð og drabbast niður.
Tilgangurinn virðist oftast vera sá að þrýsta á um enn meira niðurrif og byggingarmagn en gert var ráð fyrir í nýlega samþykktu deiliskipulagi sem Torfusamtökun hafa þegar varað við. Svo virðist sem sumir fasteignaeigendur telji samningsstöðu sína þeim mun betri því sóðalegri sem húseignirnar og umhverfi þeirra eru.
Á svo kölluðum Hverfisgötureit, sem fjallað hefur verið um í fréttum, setti borgin það skilyrði fyrir niðurrifi að í stað gömlu húsanna yrðu reistar byggingar sem féllu að umhverfinu. Það virðast eigendur ekki sætta sig við og þrýsta nú á um að fá að rífa húsin þótt ekki sé búið að samþykkja teikningar af því sem á að koma í staðinn.
Torfusamtökin telja óviðunandi að fyrirtæki sem hyggjast hagnast á framkvæmdum í miðbænum taki borgina í gíslingu með þessum hætti og setji t.a.m. verslun við Laugaveg í uppnám. Það er mikilvægt að skipulagsyfirvöld og þeir sem annast eftirlit með ástandi fasteigna láti þá sem ástunda slík vinnubrögð ekki hagnast á athæfinu enda sýnir reynslan erlendis frá að ef ekki er tekið á slíku af ákveðni ágerist vandinn hratt.
Í miðbæ Reykjavíkur eru dýrustu fasteignir á Íslandi og verðlag hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Það hefði verið hægt að nýta hina miklu eftirspurn eftir fasteignum í miðbænum til þess að fegra bæinn og draga fram það besta í eiginleikum hans. Þess í stað hefur orðið öfugþróun samanborið við margar borgir í Evrópu. Ástæðan er ásókn í að byggja stöðugt meira án tillits til umhverfisins í stað þess að styrkja umhverfið.
Á sama tíma og miðbæir margra Evrópulanda hafa gengið í endurnýjun lífdaga með því að færa gömul hús til fyrri glæsileika líður Laugavegurinn og íbúar miðbæjarins fyrir þróunina hér og skipulag sem hvetur til hnignunar fasteigna í stað þess að ýta undir að húsum sé vel við haldið eða þau gerð upp.
Það er ólíðandi fyrir íbúa miðbæjarins og Íslendinga sem unna höfuðborginni að farið sé með miðbæ Reykjavíkur á þennan hátt. Víða annars staðar hafa borgaryfirvöld fundið leiðir til að hindra slíka þróun. Það er mikilvægt að yfirvöld í Reykjavík bregðist við á sama hátt, eyði óvissu og hverfi frá skaðlegri skipulagshugsun svo snúa megi þróuninni við.
Stjórn Torfusamtakanna, 26. mars 2008.
Snorri Freyr Hilmarsson, formaður
Áshildur Haraldsdóttir
Guðjón Friðriksson
Pétur H. Ármannsson
Þórður Magnússon
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Athugasemdir
Hver er með hvern í gíslingu? Er það ekki skipulagsnefnd borgarinnar sem er með húseigendur í gíslingu og vilja ekki leyfa þeim að rífa hús sem þeir eiga án þess að þeir tilkynni fyrirfram hvað og hvernig þeir ætla að byggja? hús sem byggð eru af vanefnum og illa byggð eiga ekki rétt á sér og að byggja fornminjar er ekki rétta leiðin.
Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 14:40
Gangi ykkur vel að gera reykjavík að slummi, NOT
DoctorE (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 14:52
Það eru kvaðir á húsum sem þú kaupir í miðbæ Reykjavíkur, ef þeim líkar ekki kvaðirnar þá er það þeirra mál.
Aumkunarverðir eru þeir menn sem hugsa bara í peningum.
Að mínu mati er það ekki bara Reykjavíkurborg sem á að koma að uppbyggingu á miðbænum, heldur einnig ríkið.
Er mannfólkinu ekki að skiljast það að það þarf að breyta strax og allir þurfa að taka höndum saman og gera þetta, við erum löngu runnin út á tíma, taka ákvörðun, skipuleggja og framkvæma, er þetta mjög erfitt???. Vantar peninga nei það vantar enga peninga, bara skipulagningu, ráðsemi og framkvæmdarvilja.
Vilja svo ekki allir bara halda áfram að pexa, eða setja þetta allt í eina nefndina enn. Nei í guðs bænum þroskist upp úr þessari vitleysu.
Að byggja upp miðbæinn er ekki pólitík það á að vera akkur okkar allra.
Góðar stundir.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.3.2008 kl. 15:10
Þetta er eins og talað frá mínu hjarta. Þar sem ég er búsett erlendis var ég nuna fyrst að sjá youtube videoin með hinu glæsilega viðtali við Sigmund í Silfri Egils. Mikið er ég ánægð að til sé fólk heima sem sér þessa hluti eins og ég.
Það bara má ekki gerast að peningafólkið ráði og eyðileggi miðbæinn okkar. Við erum ekki að byggja fornmynjar heldur viðhalda sögu okkar með því að byggja upp þessi hús við Laugavegin sem byggð voru með stórum huga fyrir 1918. Mikið vildi ég sjá þessi hús sem hann Sigmundur sýndi mynd af, byggð í sinni upprunalegu og litaglöðu mynd eins og húsið við Austurvöll. Við verðum að standa saman um friðun allra húsa við Laugaveginn, sérstaklega húsin sem búið er að gefa leyfi til að rífa sem byggð voru fyrir 1918. Forfeður okkar eiga það skilið.
Hér er hinn ótrúlegi og sorglegi listi yfir húsin sem búið er að gefa leyfi til að rífa og mörg hver standa nú þegar tóm og jafnvel gefa útigangsfólki skjól... sorglegt... sorglegt... www.laugavegur.net og hér birti ég lika lista Borgarskipulags sem ég nefni í síðustu blogg grein minni, til viðmiðunar:
http://www.rvk.is/PortalData/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/husvernd_sept06.pdf )
Ég lifi í voninni,
kær kveðja frá Þýskalandi
Kolbrún Jónsdóttir, 27.3.2008 kl. 01:54
Miðbærinn í Reykjavík er sannkallað olnbogabarn í íslensku samfélagi.
Í stað þess að móta heildstætt skipulag landnýtingar þar sem áhersla sé lögð á varðveislu menningarverðmæta í formi gamalla húsbygginga, þá er braskhugsunarhættinum gefnar allt of frjálsar hendur. Ef einhver braskari hefur augastað á góðri lóð sem unnt er að byggja á, þá gerir hann allt til að komast yfir lóðina. Ef hann kaupir lóð á yfirverði hefur það óhjákvæmilega þá afleiðingu í för með sér að hækka fasteignamatið í öllum miðbænum. Lögin um Fasteignamat ríkisins eru meingölluð að þessu leyti til að hugmyndin að fasteignamati er að endurspegla það raunverulega mat með hliðsjón af markaðsverði eigna. Ekkert tillit er tekið til landnýtingar, hvaða hús eru fyrir heldur aðeins hvað markaðurinn og þar með heimur braskarans verðmetur miðbæinn. Með frjálum höndum braskarans er byggð mun stærri hús úr ódýrari byggingarefnum en fyrir eru. Stíll og útlit þessara nýju húsa er í þvílíku æpandi mótsögn við eldri húsin að útlendingar sem hingað álpast grípa fyrir höfuð sér og spyrja hvers konar fólk er þetta sem býr á Íslandi og hugsar svo illa um elsta byggðarkjarna landsins.
Þarna er meinsemdin. Ef innbyggt væri í lögin um fasteignamat sú eðlilega landnýting sem fyrir er og skipulagsyfirvöld vilja sjá fyrir í miðbænum, þá er líklegt að sjónir braskarans beinist að öðrum tækifærum til frekari auðsöfnunar. Braskarinn beitir öllum tiltækum ráðum til að koma sínu fram. Hann opnar dálítið op fyrir óreglufólk til að setjast að því ef til vill Þarf braskarinn ráðrúm til að komast yfir nærliggjandi eignir. Hann sigar jafnvel brennuvörgum til að kveikja í gömlum „húsaskriflum“ til að flýta fyrir aðgerðum. Margsinnis hefur það nefnilega skeð að brunar hafi komið upp í mörgum þessara gömlu húsa, sum þeirra þar sem rafmagn hefur verið aftengt og þau ekki getað brunnið, nema af mannavöldum.
Haft er eftir einum þekktasta braskara landsins að til að brenna takist þurfi að fá til þess „strangheiðarlegan mann“. Tilefnið var að þá hafði braskaralýður kveikt í hverju húsinu á fætur öðru, síðast í aflögðu sláturhúsi uppi á Akranesi, fyllt það af gömlum óútgengilegum vöruleifum, tryggt vel til að svíkja út tryggingabæturnar. Höfðu brennuvarganir fengið ungan mann sem var drykkfelldur, rétt að honum brennivínsflösku og eldspýtur og bent honum á að koma sér í húsið og kveikja í. Eru nú um 60 ár liðin. Sagan endurtekur sig, því miður of oft en stundum í dálítið breyttri mynd. Hugsunarháttur braskarans er hins vegar ósköp svipaður.
Með þeirri von að geta lagt dálitið af mörkum í þessa umræðu þá er óskandi að augu og eyru bygginga- og skipulagsyfirvalda Reykjavíkur megi opnast, - já og helst upp á gátt!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 27.3.2008 kl. 08:57
Ég verð nú að spyrja Guðrúnu, ef til er nóg af peningum, af hverju er þá ekki farið í að endurbyggja þessi hús? Kannski vegna þess að þeir sem eiga peningana hafa ekki áhuga á þessu? Eða vegna þess að þeir sem vilja að þetta sé endurbyggt eru ekki tilbúnir að borga fyrir það?
Gulli (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 12:03
Það er frábært að skynja þennan góða anda sem er í umfjöllun um málefni miðbæjarins, að snúa vörn í sókn. Þökk sé ykkur, Sigmundi, umfjöllun Kastljóss í kvöld og öðru. Aðalpunkturinn er að vera ekki bara að horfa á eitt og eitt hús, heldur að byggja í átjándu aldar stíl og út frá einhverri heildarsýn. Mörg af þessum endurbyggðu bárujárnshúsum gefa sjarma sem að er einstakur. Alþjóðlegir spekúlantar hrífast af sem hinu séríslenska. Við höfum tilhneigingu til að álykta að það sé betra og nútímalegra að hafa kassa úr steypu, málmi og gleri. En það er að verða viðsnúningur. Ég held meira að segja að við eigum að hafa hugrekki til að rífa sumt af hinu nýlega, sem er ljótt og passar ekki inn í heildarmyndina.
Gunnlaugur B Ólafsson, 27.3.2008 kl. 20:05
Sæll Gulli.
Það eru til menn sem eiga peninga, sem mundu vilja leggja fjármagn til þess að af þessu geti orðið.
Það sem snýr að borginni þá hafa þeir í áratugi dregið lappirnar í þessu máli,
en komin tími til að snúa við blaðinu.
Ef þú telur að það séu ekki til nægilegir peningar Gulli þá skaltu bara líta í kringum þig.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.3.2008 kl. 21:12
Gott hjá ykkur að láta til ykkar taka með miðborgina. Það þarf að sparka í nokkra rassa bæði opinbera og gullrassa. Gangi ykkur vel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2008 kl. 14:42
Tek undir með ykkur, verðum að halda vöku okkar. Sammála gbo og fiðrildi 2707
Sólveig Hannesdóttir, 2.4.2008 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.