ÁLYKTUN TORFUSAMTAKANNA

ÁLYKTUN TORFUSAMTAKANNA / 5. SEPTEMBER 2009

 Torfusamtökin vara við því hættulega fordæmi um ráðstöfun almannaeigna sem gefið er með samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulögu um uppbyggingu við Ingólfstorg og Vallarstræti. Í slíkri samþykkt felst að réttur eins lóðareiganda eru settur í forgang fram yfir breiða hagsmuni nágranna og almennings á grundvelli löngu úreltra skipulagshugmynda um miðbæ Reykjavíkur. Þó tillagan taki í vissum atriðum mið af sjónarmiðum húsverndar þá er hæð og umfang fyrirhugaðrar nýbyggingar við Vallarstræti á skjön við þá farsælu endurreisn sögulegrar götumyndar Aðalstrætis og Grófar, sem borgaryfirvöld hafa unnið að af miklum metnaði og með glæsilegum árangri á undanförnum árum. Með nýbyggingunni yrðu fest í sessi eldri skipulagsmistök er heimild var veitt fyrir hækkun Aðalstrætis 9, en gluggalaus gafl þess húss varpar mestum skugga á sunnanvert Ingólfstorg og spillir ásýnd þess. Í því máli voru fjárhagslegir hagsmunir eins húseiganda teknir fram yfir tækifæri borgarbúa að eignast sólríkt og fallegt torg í hjarta miðbæjarins.

Nýjar upplýsingar um eðli og umfang minja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar á svæðinu við Aðalstæti og Kirkjustræti breyta forsendum um uppbyggingu á þeim lóðum sem deiliskipulagið tekur til. Ljóst er að gera þarf umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessum fornleifum kann að vera fólgið einstakt tækifæri fyrir Reykjavík sem ekki má gefa sér fyrirfram að moka megi burt.  Þær fornleifar geta reynst Reykjavík, sögustaðnum við sund, menningarborginni og ferðamannastaðnum verðmætari en eitt hótel.  Þá kann hugmynd um að „jarða“ hinn sögulega merka og um margt einstæða sal gamla Sjálfstæðishússins að vera í uppnámi, fari svo að merkar minjar finnist á lóð hússins.

Torfusamtökin árétta mikilvægi þess að borgaryfirvöld samþykki endurskoðaða heildarstefnu um húsvernd í elsta hluta Reykjavíkur og geri hana að lögformlegum hluta aðalskipulags borgarinnar.  Í því eru fólgnir ríkir almannahagsmunir fyrir alla íbúa borgarinnar um langa framtíð.

Meðan húsverndarstefna Reykjavíkur er ekki hluti af aðalskipulagi borgarinnar mun uppbygging hins sögulega kjarna borgarinnar verða tilviljunarkennd, ómarkviss og borginni dýr.  Mörkuð vafasömum þrætumálum eins og því sem hér fer. 

Stjórn Torfusamtakanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband