Samúðarkveðjur

    Það er vægast sagt ömurlegt að horfa upp á þessi merkilegu hús fuðra upp. Það vekur líka upp margar spurningar, það er ljóst að brunavörnum hefur verið stórlega ábótavant í a.m.k. einhverjum af þessum húsum með tilliti til hvaða starfsemi fór þar fram og ég fæ hroll þegar ég hugsa til þess að stór hluti byggingararfsins er í eigu aðila sem sjá sér fyrst og fremst hag í því að hann grotni sem mest niður.

    Það er fyrirsjáanlegt að það verður slagur um þessar lóðir. Þegar maður hugsar til þess að núverandi eigendur hafa átt Austurstræti 22 í fjölda ára án þess að sýna því húsi nokkurn sóma finnst manni ólíklegt að þeir hinir sömu eigi eftir að vera sáttir við að sjá það endurreist. Líklegra má telja að þeim finnist sjálfsagt að nýta byggingarrétt til samræmis við nærliggjandi hús.

    Einnig er líklegt að umræðan gæti orðið þungbær fyrir okkur sem elskum gömlu byggðina ef hún fær að þróast í neikvæða átt. Það er stórhætta á því að þeir sem vilja losa okkur við eldri timburhús verði í kjölfarið háværir með vísan í eldhættuna sem af þeim stafar og mátti strax sjá merki um það í Fréttablaðinu í morgun þar sem talað var um að erfitt hefði verið að sinna brunavörnum þar sem húsin hefðu verið friðuð. Þarna er hætta á misskilningi, sumar brunavarnir henta ekki í gömlum húsum en það kemur í engan hátt í veg fyrir það að hægt sé að brunahólfa húsin og ég sé það ekki fyrir mér að Húsafriðunarnefnd hafi komið í veg fyrir það.

    Í Noregi þar sem eru mikið af þéttbyggðum timburhúsahverfum hafa verið þróaðar ýmsar aðferðir, má þar nefna timburpanell sem hefur meðhöndlaður með efnum sem gera hann brunaheldan, það ber merki um mjög framsækna húsvernd því að gips klæðningar eins og eru mikið notaðar í nýbyggingum hér á landi er líka hægt að nota til að brunahólfa.

 Sjá hér meira um þetta atriði. 

    Það er hins vegar ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum almennings og stjórnmálamanna, flestir taka undir það að mikil menning hafi farið þarna forgörðum. Þetta finnst mér vera mikil kúvending þar sem ekki er svo ýkja lang síðan að stórmerkilegt hús var fjarlægt af Lækjargötu og flutt upp í Árbæjarsafn og reist í staðin hús sem gnæfði yfir söguslóðirnar og kennt hefur verið við jómfrúna. Enn styttra er siðan að elsti hluti Nýja Bíós skemmdist í eldi og var síðan rifið bókstaflega hljóðlaust í kjölfarið. Það hús hefði auðvitað átt að endurbyggja þar sem skelin var meira og minna í góðu lagi en í staðin var byggt hús sem var enn meira í ósátt við umhverfið heldur en sá hluti Nýja bíós sem reistur var í kringum 1960. Viðbrögðin í dag munu samt ekki tryggja að vel verði staðið að enduruppbyggingu á svæðinu. Um það þarf að standa vörð.

Austurstræti 22 Þórður Magnússon

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Slökkvilið og lögregla á vakt í alla nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sorg og kannski léttir.
Nú er það farið, farið yfir móðuna miklu, eitt elsta hús Reykjavíkur.
Mér var hugsað þegar ég heyrði fréttina um eldsvoðann - við hugsum um gömul hús jafn illa og gamla fólkið, sinnum þeim eins lítið og hægt er. Svo þegar það er farið þá byrja allir að tala svo fallega. Þetta voru svo milil menningarverðmæti! Hræsni, enginn siðaður maður gengur svona um menningarverðmæti. Mér er eiginlega létt. Niðurlægingunni er lokið. Mér finnst að við ættum að skammast okkar og sérstaklega borgaryfirvöld - gangið um bæinn, sóðaskapurinn er yfirgeingilegur og viðhald húsa almennt hörmulegt.. ég get ekki meir, ég er svo dapur.

Kristinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband