Laugavegsniðurrifið

Jón Torfason skrifar:

Vakningin í kringum Bernhöftstorfuna og stofnun samtaka í framhaldi af því átti mikinn þátt í að opna augu manna fyrir gildi gamalla húsa og manneskjulegs umhverfis. Víða úti á landi hafa sveitarstjórnir séð sóma sinn í að rækta menningararfinn og hlúa að gömlum byggingum. Á sama tíma hefur hvert stórslysið eftir annað riðið yfir Reykjavík. Menn hafa rifið gömul hús og sópað burt fornu byggðamunstri af algeru tillitsleysi í hjarta gamla bæjarins. Til að rýma fyrir ráðstefnuhúsi og bankahöll við gömlu höfnina var öllu rústað við austanvert Hafnarstræti og t.d. síðustu leifar gamalla uppskipunarmannvirkja eyðilagðar þegar Ziemsenhúsið var fjarlægt. Það stóð á upprunalegum stað og þar mátti sjá vörurennur sem lágu frá fornu neðan úr fjörunni í hús, nú allt horfið.

Það má líkja niðurrifi fornra menningarsögulegra merkra húsa við bókabrennur, og ekki bara brennur nokkurra eintaka af tiltekinni bók, heldur því að öllum – þ.e. undantekningarlaust öllum eintökum, skrifuðum og prentuðum, á spólum eða mynddiskum – er eytt. Það má hugsa sér að með húsunum tveimur, sem brunnu í miðbænum í vetur, hefðu brunnið tvær af Reykjavíkursögum Gests Pálssonar, t.d. Grímur kaupmaður deyr og Hans Vöggur, og þær séu nú aðeins til í bliknandi minni manna. Samt er eldurinn ekki stærsti skaðvaldurinn, aldrei verður hægt að koma algerlega í veg fyrir að hús brenni. Skeytingaleysi borgaryfirvalda og þeirra sem móta stefnuna í skipulagsmálum höfuðborgarinnar, þ.e. byggingarverktaka og peningamanna, er mörgum sinnum hættulegra en tilfallandi eldsvoðar þótt skelfilegir séu.

Og hvað kemur svo í staðinn, í hverju felst hin svokallaða "uppbygging" sem peningamennirnir róma svo mjög? Þegar farið er um ofanverðan Laugaveginn fer um mann hrollur við þá framtíð sem blasir við. Eftir að byggt var "upp" á Stjörnubíósreitnum svonefnda er á svæðinu ofan frá Hlemmi niður að Barónsstíg sviplausar húsalengjur. Byggt er á ystu lóðamörk til að hámarka nýtingarhlutfallið svo arkitektar, sem fá það vanþakkláta verkefni að teikna nýjar byggingar þarna, hafa litla möguleika til að "skapa" eitthvað eftirminnilegt. Enda er það svo að öll þau nýju hús, sem hafa verið byggð við Laugaveginn undanfarið, eru undantekningarlaust sviplítil og ljót, skrifstofu- eða íbúðarkumbaldar með risastórum rúðum á jarðhæð sem hafa engum öðrum boðskap til vegfarenda að miðla en að þar séu vörur til sölu.

Það er oft gaman að rölta um Laugaveginn, njóta fjölbreytninngar sem þar blasir þó enn við, velta fyrir sér byggingareinkennum gömlu húsanna og þeirri sögu sem þar varð til. Það eru ekki margar götur í heiminum þar sem sjá má jafn marga og ólíka byggingarstílarstíla á stuttri leið, en fjölbreytnin gerir Laugaveginn einmitt svo sérstakan og skemmtilegan. Þessu er nú markvisst verið að fórna. Í vor var eitt síðast sveitserhúsið, á Laugavegi 74, flutt í burt og boðað að fyllt verði í skarðið með sviplausum steinsteypukassa, byggingarmagnið nær fimmfaldað. Fyrirhugað er þó að byggja eftirlíkingu af framhlið gamla hússins. Húsin frá Vatnsstíg upp að Laugaveg 35 eru á dauðalistanum en verið að hanna risa stóra byggingu sem á að ná niður að Hverfisgötu. Og nú á næstu dögum fara svo Laugavegur 4-6 en eftir "uppbygginguna" þar kemur hornhúsið á mörkum Laugavegs og Skólavörðustígs til með að hanga utan í væntanlegu hótelbákni eins og hjákátlegt bíslag.

Skipulagsmálin í gamla bænum einkennast af algeru virðingarleysi fyrir menningarverðmætum og notalegu umhverfi. Manni flýgur stundum í hug að menn láti stjórnast af einhvers konar eyðileggingarhvöt. Svo mun þó ekki vera heldur er það aðeins skammsýn og hömlulaus gróðahyggja sem ræður. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra, því það verður aldrei hægt að bæta fyrir þann skaða sem verið er að vinna á gamla miðbænum um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband