13.9.2007 | 09:26
Fréttatilkynning frá stjórn Torfusamtakanna.
Stjórn Torfusamtakanna fagnar þeim hugmyndum sem birtast í
verðlaunatillögu í hugmyndaleit Reykjavíkurborgar, þar sem rík
áhersla er lögð á að varðveita og endurbyggja merkar gamlar byggingar
á svæðinu umhverfis Lækjartorg.
Einnig fagnar stjórnin þeirri ákvörðun borgaryfirvalda að
verðlaunatillagan verði grundvöllur nýs deiliskipulags á svæðinu.
Að mati stjórnarinnar setur verðlaunatillagan mikilvægt fordæmi um
hvernig standa megi að uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur í sátt við
umhverfið og með virðingu fyrir sögulegum menningararfi.
Sú staðreynd að tillagan er afrakstur samvinnu færustu ráðgjafa á
sviði húsverndar og þeirrar teiknistofu íslenskrar sem mestrar
virðingar nýtur á alþjóðavettvangi fyrir framsækna hönnun sýnir og
sannar að húsagerðararfur fyrri tíðar og nútímaarkitektúr geta vel
fléttast saman í sannfærandi heild þegar fagmennska og listrænn
metnaður ræður ferðinni í mótun og útfærslu hugmynda.
Með samkeppni þessari hefur Reykjavíkurborg stigið jákvætt skref í
átt til þess að lífga miðborgina. Við óskum borgarstjórn til hamingju
með ánægjulega niðurstöðu. Yfirlýsingar borgarstjóra og formanns
skipulagsnefndar eru uppörvandi og vekja vonir um að hugmyndum
þessum verði fylgt eftir af fullri einurð og metnaði.
Stjórn Torfusamtakanna
Snorri Freyr Hilmarsson, leikmyndateiknari.
Pétur Ármannsson, arkitekt.
Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur.
Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari.
Þórður Magnússon, tónskáld.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.