Bostonfundur, áskorun til borgarstjóra.

Af fundinum á Boston við Laugaveg má ljóst vera að það er mikil undirliggjandi gremja og ótti vegna þess hvert stefnir með Laugaveg og gamla bæinn. Fyrirhugað niðurrif er fyrirbæri sem orðið hefur til án þess að endurspegla gildismat og væntingar þeirra sem kosið hafa að búa og starfa í gamla bænum, vegna þess sem gamli bærinn er og gæti orðið, væri rétt að málum staðið.

Fundurinn var mjög vel sóttur, staðurinn var þéttsetinn og fólk stóð hvarvetna, í stigum og út á götu, svo margir urðu frá að hverfa.

Margt var reifað en nokkur þeirra helstu atriða sem komu fram á fundinum eru:

-Það er skylda borgarinnar að endurskoða aðalskipulag og þar með deiliskipulag í hvert sinn sem nýr meirihluti tekur við svo það endurspegli gildismat og væntingar íbúanna til umhverfisins eins og það er á hverjum tíma. Nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur því öll spil á hendi að snúa við þeirri óheillaþróun sem núgildandi skipulag og deiliskipulag svæðisins býður heim.

-Meginatriði fundarins var því áskorun til borgarstjóra að leita allra leiða til að þyrma húsunum við Laugaveg 4 – 6 og snúa frá niðurrifsstefnunni.

-Áskorun þar um þurfa sem flestir að senda borgarstjóra svo hann sjái að fólki er ekki sama um eyðileggingu miðbæjarins. Netfang borgarstjóra er:

  borgarstjori@reykjavik.is

-Með þátttöku skapast tækifæri til að snúa þessari þróun við. Það er því afar mikilvægt að sem flestir sendi borgarstjóra skeyti eða bréf og lýsi hug sínum. Annaðhvort stuttlega með eigin orðum eða nýti sér punkta frá Torfusamtökunum. Torfusamtökin hafa þegar komið slíkum áskorunum á framfæri við borgarstjóra.

-Það eru veigamikil rök til þess að í Reykjavík, rétt eins og í öðrum borgum Evrópu, skipti samstæð heild í hinum sögulega miðbæjarhluta borgarinnar mestu máli þegar kemur að því hvernig slíkir bæjarhlutar virka sem menningarlegt hjarta borgarinnar, auk þess sem þeir laða að sér fjárfestingu til borgarinnar allrar.

-Í þessu tilliti er Reykjavík 30 árum á eftir því sem tíðkast í Evrópu þar sem áhersla er lögð á að endurheimta þau gæði sem gömlu bæjarhlutarnir hafa uppá að bjóða.

-Það eru því ríkir almannahagsmunir í húfi að snúið verða frá þeirri stefnu niðurrifs sem verið hefur við lýði allt frá 1962 og jafnvel lengur. Verndun Laugavegar 4 – 6 er því mikilvægt merki um að nýr meirihluti vilji endurskoða þessa stefnu.

-Torfusamtökin hafa undanfarið sýnt fram á að framtíðartækifæri Reykjavíkur, bæði menningarlega og fjárhagslega, eru fólgin í virðingu fyrir byggingararfinum. Slík tækifæri hafa verið nýtt, t.d. með uppbyggingu á Torfunni, í Aðalstræti og á fleiri stöðum í gamla bænum, er sýna að verndun er verðmætasta uppbyggingin. Sú friðun húsa sem nú stefnir í allt í kring um laugaveg 4-6, það er húsanna við Laugaveg 2, 10, 11 og 12, gerir Laugaveg 4-6 að slíku tækifæri þar sem hægt er að auka gæði heildarinnar ríkulega í stað þess að rýra hana.

Hér á eftir koma minnispunktar sem við settum saman varðandi Laugaveg 4 og 6.

1. Það er til lausn sem hæfir metnaði borgarinnar þar sem saga götunnar lifnar og vernd og uppbygging fara saman. Hjörleifur Stefánsson hefur tekið saman greinargerð þar sem fram kemur áætlaður kostnaður við það að fara þá leið sem Torfusamtökin hafa bent á. Hægt er að byggja gott verslunarrými undir húsin og nýta pláss á milli þeirra sem og bak við til að ná fram stórum hluta af því byggingarmagni sem samþykkt hefur verið. Tillaga Torfusamtakann er í raun mun meira í ætt við það sem sett var fram í deiliskipulaginu frá 2003 bæði hvað varðar byggingarmagn og nýtingu.

2. Bæði húsin eru meðal allra elstu húsa í Reykjavík, eldra húsið er frá 1871 og það yngra frá 1890.

3. Samkvæmt áliti Borgarminjavarðar stóð til að húsin tvö yrðu varðveitt. Í deiliskipulagsvinnu var þessu hins vegar snúið á hvolf og lagt til að öll hús á reitnum ættu að fara, þar á meðal friðað hús, Laugavegur 2.  Húsafriðunarnefnd og Borgarminnjavörður kusu að gera málamiðlun til að bjarga Laugavegi 2 frekar en að standa fast á sínu, þennan viðsnúning verður þó að skoða í því ljósi að umræðan á þessum tíma var almennt neikvæð varðandi gamla bæinn og þau því undir mikilli pressu.

4. Þau standa í elsta hluta götunnar og eru tenging verslunargötunar við einn best varðveitta hluta miðbæjarins, þ.e. Þingholtin. Þau standa einnig mitt á milli húsa sem eru friðuð eða eru á leiðinni að verða friðuð. Húsaröðin frá Bankastræti 2 (Bernhoftsbakarí) og að Laugavegi 12b eða jafnvel 16 verður að teljast afskaplega heilleg og hefur í heild sinni mikið varðveislugildi. Verðmæti götunnar í heild sinni mun tvímælalaust rýrna mikið með tilkomu byggingar sem er í jafn lítilli sátt við umhverfið og raun ber vitni. Bygging sem er í hróplegu ósamræmi við þá viðleitni í átt að verndun sem sýnd hefur verið að undanförnu m.a. með tillögu að friðun 10 húsa við Laugaveg.

5. Fyrrnefndur spotti er án efa meðal fjölförnustu göngu-leiða erlendra ferðamanna um borgina.

6. Nýbyggingin kemur til með að standa sólarmeginn og mun skyggja á frekar sólríkan stað á Laugavegi.   Í könnun sem gerð var nýlega þar sem kannað voru tilfinningar fólks gagnvart tilteknum svæðum í RVK, kom í ljós að fólk var í meira lagi jákvætt gagnvart neðsta hluta Laugavegar og er það að öllum líkindum m.a. því að þakka hvað núverandi hús eru lágreist og skyggja lítið á sólu, einnig hafa aðrar kannanir bent á það að fólki líður vel í sögulegu umhverfi. Að sama skapi kom í ljós að tilfinningar fólks voru í neikvæðari kanntinum gagnvart efri hluta Laugavegar þar sem byggðin er bæði háreistari og nýrri.

7. Aðkoma bæði Húsafriðunarnefndar og Rýnihópsins voru ekki í samræmi við gefin loforð. Nánar er farið í þetta í meðfylgjandi gögnum en við þau má bæta að umboð rýnihópsins var naumt og stjórnsýsluleg staða óljós. Einnig má nefna að Húsafriðunarnefnd neitaði að taka endanlega afstöðu til niðurrifs þessara húsa nema fyrir lægi hvernig unnið væri með götumyndina. Byggingarfulltrúi veitti að lokum endanlegt byggingar-leyfi þó svo að úrskurður lægi ekki fyrir frá Húsafriðunarnefnd.

8. Reynslan af þessum húsum segir okkur að ekki er lengur nóg að rýna á húsin ein og sér, þegar ákvörðun um varðveislu er tekin, heldur þarf að meta þau tækifæri sem eru í hverju tilviki að skapa stærri heildir, óháð gildi einstakra húsa og nýtingu þeirra. Það var ekki síst það sem mönnum yfirsást í þessu tilviki, tækifærið til að mynda eina heild úr elsta hluta Laugavegarins. Afskræmt og niðurnítt útlit húsanna í núverandi mynd og annmarkar á notagildi þeirra (smæð) í núverandi mynd var það sem horft var á, auk þess sem menn höfðu ekki ímyndunarafl (eða vilja) til að finna aðrar lausnir.

9. Hitt er að það er ekki hægt að redda of miklu byggingarmagni á lóð með útlitshönnun nýbygginga einni og sér, sama hvað menn reyna. Ef magnið er of mikið fyrir reitinn, getur enginn arkitektúr bjargað því. Með nýbyggingunni við Laugaveg verður til brunagafl upp að nýlega friðuðu húsi. Ólíkt gömlu brunagöflunum frá fyrri hluta 20. aldar sem áttu sér gildar sögulegar skýringar verður byggt upp af þessum brunagafli. Því á hann engan rétt á sér, heldur verður hann tákn um skipulagsmistök við úthlutun byggingarmagns.

10. Með hliðsjón af því lóðabraski sem einkennt Laugaveginn síðustu ár, og má þar sérstaklega nefna Laugaveg 74 þar sem lóðin ásamt byggingarrétti var komin í sölu tæplega viku eftir að búið var að fjarlægja gamla húsið, er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja að þessi saga endurtaki sig ekki hvað varðar Laugaveg 4 og 6. Allt bendir til þess að húsin tvö verði fjarlægð af lóðinni í byrjun nýs árs, eftir að jólaverslun lýkur. Þegar "vandamálið" (þ.e. gömlu húsin) eru úr sögunni, verður þá eigendunum frjálst að hefja blómleg viðskipti og innleysa kótagróða sinn af því ríflega byggingarmagni sem þeim hefur verið úthlutað í deiliskipulagi á kostnað heildarmyndar götunnar? Við getum ekki fullyrt ekki að sú verði raunin, en bendum á að með því að heimila niðurrif húsanna er um leið búið að útiloka þann kost að endurreisa elsta hluta götunnar t.d. á þann hátt sem Torfusamtökin settu fram í formi tillögu fyrr á þessu ári. Meðan húsin standa er ekki of seint að vinda ofan af þessu máli og nýta það tækifæri sem hér er til að endurreisa þennan elsta hluta götunnar með þeim hætti sem nú tíðkast í miðbæjum evrópska borga með virðingu fyrir sögulegu umhverfi að leiðarljósi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

´Takk fyrir þetta.

Sólveig Hannesdóttir, 28.12.2007 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband