22.5.2007 | 12:11
Rífa á húsið enda gamalt og illa farið.
Ég legg til að fenginn verði frábær, heimsþekktur arkitekt erlendis frá, til að hanna hús þarna. Í hugann koma nöfn eins og Gehry, Foster, Kolhaas, Piano, Mayer, Larsen og Ando o.fl.
Húsið gæti kallast á við turnanna í skuggahverfinu.
Arkitektinum yrði falið að teikna hús, miðpunkt höfuðborgarinnar, sem allur umheimurinn myndi dást að og afkomendur okkar vera stoltir af um ókomna tíma.
Við höfum góða reynslu af toppmönnum í húsagerðarlist. Norræna húsið etir Alvar Aalto er gott dæmi.
Nú er tími og tækifæri til að hugsa stórt!
Verktaki Lóðabraskarason
Hús ráðherrans selt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 00:31
Vinnuhópar Torfusamtakanna í bígerð
Heilir og sælir félagar í Torfusamtökunum.
Nú er tækifæri til að hafa áhrif á gang mála og láta gott af sér leiða í tengslum við þau mál sem okkur eru kær, sálinni í bænum, byggingararfleifðinni og verndun gamalla húsa.
Fyrirhugað er að stofna vinnuhópa innan Torfusamtakanna með afmörkuð og ólík hlutverk málstaðnum til framdráttar.
Við vitum að í Torfusamtökunum er afbraðgsgott fólk með brennandi áhuga á málefninu en vinnuhópunum er einmitt ætlað að skipuleggja og virkja þann kraft sem í því býr.
Hafir þú sérstakan áhuga á einhverju málefnanna á listanum hér fyrir neðan og treystir þér til að vinna í sjálfboðavinnu í tengslum við það, hafðu þá samband við Áshildi Haraldsdóttur í stjórn Torfusamtakanna á netfanginu ashildur@internet.is. Svo er þér auðvitað velkomið að stofna nýjan hóp ef málefni sem þér er umhugað um er ekki á listanum.
Nýstofnaðir hópar munu hittast á stofnfundi í lok maímánaðar, sunnudaginn 20. maí kl. 11:00-13:00 til að stilla saman strengi sína. Staðsetning tilkynnt síðar.
Skipulags- og byggingasviðsvaktin.
Fylgist grannt með og miðlar fréttum s.s. af nýju deiliskipulagi og öðrum skipulagsmálum sem kunna að hafa áhrif á atriði sem Torfusamtökun hafa áhuga á. Minnir á hvernær frestur til að skila athugasemdum rennur út. Arkiktektar sem þekkja stjórnsýsluna eru sérlega velkomnir. Það er miklvægt að sem flestar athugasemdir berist. Það er helst hér sem hægt er að hafa áhrif.
Fjölmiðlavaktin.
Safnar og heldur utan um greinar og skrif, gömul og ný, sem tengjast málefnum sem eru Torfusamtaökunum hugleikin. Safn þetta verður uppistaða í gagnagrunni og birt að hluta á heimasíðu samtakanna.
Fjáröflunarhópur.
Sækir um alla mögulega styrki fyrir hönd Torfusamtakanna. Styrkirnir verða notaðir í heimasíðugerð og kynningarefni samtakanna.
Í þessum hópi er Áshildur Haraldsdóttir þegar meðlimur.
Systrafélagshópur.
Leitar uppi samtök sambærileg Torfusamtökunum innanlands og utan og fær upplýsingar um starf þeirra sem hvetja okkur til dáða.
Verðlaunahópur.
Safnar tillögum um verðlaunahafa vegna virðingarverðra framkvæmda í þágu gamalla húsa s.s. einstaklega vel heppnaðra endurbóta. Með verðlaunaafhendingunni væri hægt að vekja athygli á málstaðnum á jákvæðan hátt.
Hugmyndabankinn.
Safnar og vinnur úr hugmyndum um hvernig meðlimir Torfusamtakanna, og aðrir, sjá fyrir sér að byggingararfleifðin mætti verða til sem mests gagns og prýði.
Söguhópur.
Hópur sem hægt væri að kalla til þegar við höldum að umfjöllun um sögufræg hús gæti otðið þeim til bjargar. Ekki væri verr að meðlimir hópsins þekktu ljósmyndasöfn eða hefðu aðgang að þeim. Pétur Ármannsson er þegar meðlimur í þessum hóp.
Hagsmunasamtök íbúa í gamla bænum.
Hópur fólks sem býr í gömlum húsum og hefur hagsmuna að gæta varðandi nýbyggingar og nýtt deiliskipulag í sínu hverfi.
Ég vonast til að heyra í ykkur bráðlega
Kær kveðja
Áshildur Haraldsdóttir
3.5.2007 | 21:45
Rífa þessa kofa
Hvernig væri nú að fara að rífa þessa blessuðu hundakofa sem eru ekki nokkrum manni sæmandi. Þarna mætti vel sjá fyrir sér nokkra turna eins og verið er að reisa í skuggahverfinu sem myndu bæði hýsa fleira fólk og hver einasti hefði rýmra um sig. Það er skömm að því að sjá þetta verðmæta byggingarland fara undir jafn veigalítinn húsakost og þennan.
Verktaki Lóðabraskarason
75 ár frá því flutt var í verkamannabústaðina í Vesturbæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.4.2007 | 22:11
Hús í Skugga
Nú stendur til að byggja við Lindargötu, vestan við Vatnsstíg, blokkir, sem munu gnæfa yfir gömlu fallegu húsin á Veghúsastíg. Viðbúið er að á meðan verið er að byggja ofan verðu við Lindargötuna veri mikið um truflun á símalínum, vatnsleiðslum og skólpi, auk hávaða og sóðaskapar. Núna fyrir nokkrum dögum var verið að rífa eitthvað af skúrum og tvö góð og vel við haldin hús á lóðunum og vægast sagt fylgdi því óþolandi hávaði og auk þess komu sprungur í veggi á Veghúsastíg 9 A. Við Veghúsastíg 5, er leiksólinn Lindarborg og nær útileiksvæði barnanna að Lindargötu, rétt þar sem á að fara að byggja enn nú eina blokkina.
Á Klapparstíg er gamall steinbær sem mjög líklega er síðasta Kasthúsið. Mér er tjáð að þann bæ eigi að rífa. Ljótt ef satt er. Svo er það Veghúsastígur 1, gamli Veghúsabærinn, hvað skyldi nú verða um hann? Það væri synd að segja að okkur húseigendum og íbúum við Veghúsastíg hafi verið sómi sýndur. Fyrir nokkrum árum var troðið þarna gistiheimili á nr .7. En þar sem gatan er bæði lítil og þröng var þessi staðsetning fyrir gistiheimili afar óheppileg. Núna er þetta gistiheimli fullt af útlendum verkamönnum sem vitanlega fer mikið fyrir hvað varðar bílaeign þeirra. Enn eitt vil ég nefna og það er það að götunni eða gangstéttum við hana er ekki haldið við. Búið er að sækja um hraðahindranir í götuna fyrir mánuði en ekkert gerist í þeim efnum.
Skuggahverfið er í rúst eftir byggingu turna og annan gjörning og ekki séð fyrir endan á þessu öllu saman. Þetta hverfi á sér mikla sögu sem ekki hefur verið nógsamlega haldið á lofti. Núna er lítið eftir af gömlu húsunum þar og spurnig er hvort hin ágætu Torfusamtök ættu ekki að líta á húsin við Veghúsastíg og það sem er eftir af Skuggahverfinu.
Ég er tilbúin að ganga um hverfið með forustumönnum Torfusamtakanna og sýna ykkur hvernig græðgisvæðingin hefur farið með Skuggahverfið.
Ég er ánægð með að núverandi borgarstjóri ætlar að reyna að vernda og láta byggja upp í upphaflegri mynd húsin í Lækjargötu og Austurstrræti.
Freyja Jónsdóttir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 20:39
Bjargvætturinn borgarstjórinn.
Það var sannarlega hörmulegt að fylgjast með þegar okkar sögufrægi og kæri miðbær brann í síðustu viku. Þar fóru tvö í viðbót af þeim innan við 200 húsum sem eftir eru á höfuðborgarsvæðinu frá því fyrir aldamót 1900.
Því var það kærkomið mitt í öllum hörmungunum að heyra Vilhjálm borgarstjóra lýsa því yfir að húsin yrðu endurbyggð.
Borgarstjórinn varð, ásamt slökkvuliðsmönnunum öllum auðvitað, á svipstundu að bjargvætti í mínum augum fyrir það að gera sér grein fyrir gríðarlegum missinum og taka þessa góðu ákvörðun í reykjarkófinu.
Það tíðkast út um allan heim að endurreisa kirkjur og óperuhús eftir bruna eða loftárásir.
Þá skiptir sköpum að þær byggingar sem eru borgarbúum kærar rísi úr brunarústunum eins og fuglinn Fönix fallegri en nokkru sinni fyrr!
Það að hlaðinn grunnur og eldstæði er vonandi nothæft úr rústunum af Austurstræti 22 er frábært því það gefur endurbyggingunni enn meiri tenginu við söguna. Bruninn sjálfur og endurbyggingin verður enn einn kaflinn á aldalangri sögu sem komandi kynslóðir munu bæta við.
Það er miður að ekki séu strangari reglur og meira aðhald frá Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar varðandi nýbygginar í miðbænum. Enginn virðist hafa yfirsýn yfir heildarstefnu í þessum málum. Miðbærinn heldur áfram að þróast tilviljunarkennt, hvert deiliskipulagið ótengt því næsta að því að mér virðist.
Gott dæmi um það er að enginn veit í dag hversu mörg gömul hús eru í niðurrifshættu eða hversu mörg eru eftir. Allavega varð fátt um svör þegar ég hafði sambandi við umrætt Skipulags- og byggingasvið.
Ef borgin hefði meira um það að segja hvað væri leyft að byggja og hvað ekki héldu verktakar síður gömlum húsum í gílsingu, svo ég vitni í orð Þórðar Magnússonar. Verktakarnir hafa nefnilega komist upp með það að rífa menningararfinn okkar allra og byggja nýbyggingar í stað þeirra. Þar sem allt miðast við þá alódýrustu framleiðslu mögulegu til að tryggja að byggingin skili sem mestum arði í endursölu.
Í ljósi þess krefst eigandi Austurstrætis 22 að sjálfsögðu verðs fyrir lóðina sem miðast við byggingu 6 hæða stórhýsis.
Áshildur Haraldsdótti, flautuleikari og í stjórn Torfusamtakanna.
24.4.2007 | 10:49
Enduruppbygging
Sæl.
Það lítur út fyrir að Lækjargata 2 sé ekki eins illa farin og óttast var. Það þarf ekki að rífa hana til grunna til að geta byggt upp. Þetta er mitt mat og ég hef fengið það staðfest frá smiði. Varðandi Austurstræti 22 er það nokkuð ljóst að það þarf að endurbyggja frá grunni. Hins vegar hefur gamalt eldstæði og hlaðinn grunnur að öllu líkindum sloppið.
Það eru mjög góðar fréttir að Reykjavíkurborg sé að skoða það alvarlega að kaupa lóðirnar, ég er þó ekki eins sáttur við það að Reykjavíkurborg telji sig skuldbundna til að borga fyrir lóðirnar eins og byggingarreit fyrir 6 hæða stórhýsi. Það er ekki gott fordæmi og gefur undir fótinn hjá þeim sem telja sig geta haldið lóðum í gíslingu. Þ.e. keypt upp gömul hús og láta þau drabbast niður þangað til að skipulagsyfirvöld sjá sig knúin til að ganga að hvaða kröfum sem er.
Það er skondið að fylgjast með ákveðnum aðilum í umræðunni um hvort að endurbyggja eigi húsin eða ekki. Umræðan á auðvitað fullkomlega rétt á sér og sjálfsagt að skoða allar hliðar. En það er eins og sumum finnist það vera náttúrulögmál að ef hús brennur eða skemmist þá verði að gera eitthvað allt annað í staðinn. Það gleymist að hönnun mannvirkis eða borgarmyndar er stór hluti þess verðmætis sem liggur í húsum. Hér er öfgakennt dæmi máli mínu til stuðnings. Maður kaupir sér þjónustu arkitekts, hann byggir húsið, húsið brennur, maðurinn fer til annars arkitekts og kaupir sér nýja hönnun út af fyrrnefndu náttúrulögmáli. Auðvitað segir það sig sjálft að hægt er notast við sömu hönnun oftar en einu sinni.
Fallegar götumyndir í gömlum borgarhlutum eru afrakstur margslunginar hönnunar sem hefur staðið yfir í aldir og algjör óþarfi að skammast sín fyrir það að leyfa stundum endurbyggingar á gömlum húsum. Það eru ekki ófá dæmi um það hér í Reykjavík að fallegri hönnun hefur verið skipt út fyrir verri hönnun. Í rauninni ætti að vera sjálfsagt mál að hverfa jafnvel aftur til eldra húss ef nýrra hús hefur sýnt að það hefur neikvæð áhrif á götumyndina. T.d. hefði ég ekkert á móti því að sjá Hótel Heklu endurreist þar sem nú er strætó-skiptistöðin við Hafnarstræti og stendur víst til að rífa.
Þórður Magnússon
Bann sett við niðurrifi húsanna við Austurstræti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.4.2007 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2007 | 11:20
Samúðarkveðjur
Það er vægast sagt ömurlegt að horfa upp á þessi merkilegu hús fuðra upp. Það vekur líka upp margar spurningar, það er ljóst að brunavörnum hefur verið stórlega ábótavant í a.m.k. einhverjum af þessum húsum með tilliti til hvaða starfsemi fór þar fram og ég fæ hroll þegar ég hugsa til þess að stór hluti byggingararfsins er í eigu aðila sem sjá sér fyrst og fremst hag í því að hann grotni sem mest niður.
Það er fyrirsjáanlegt að það verður slagur um þessar lóðir. Þegar maður hugsar til þess að núverandi eigendur hafa átt Austurstræti 22 í fjölda ára án þess að sýna því húsi nokkurn sóma finnst manni ólíklegt að þeir hinir sömu eigi eftir að vera sáttir við að sjá það endurreist. Líklegra má telja að þeim finnist sjálfsagt að nýta byggingarrétt til samræmis við nærliggjandi hús.
Einnig er líklegt að umræðan gæti orðið þungbær fyrir okkur sem elskum gömlu byggðina ef hún fær að þróast í neikvæða átt. Það er stórhætta á því að þeir sem vilja losa okkur við eldri timburhús verði í kjölfarið háværir með vísan í eldhættuna sem af þeim stafar og mátti strax sjá merki um það í Fréttablaðinu í morgun þar sem talað var um að erfitt hefði verið að sinna brunavörnum þar sem húsin hefðu verið friðuð. Þarna er hætta á misskilningi, sumar brunavarnir henta ekki í gömlum húsum en það kemur í engan hátt í veg fyrir það að hægt sé að brunahólfa húsin og ég sé það ekki fyrir mér að Húsafriðunarnefnd hafi komið í veg fyrir það.
Í Noregi þar sem eru mikið af þéttbyggðum timburhúsahverfum hafa verið þróaðar ýmsar aðferðir, má þar nefna timburpanell sem hefur meðhöndlaður með efnum sem gera hann brunaheldan, það ber merki um mjög framsækna húsvernd því að gips klæðningar eins og eru mikið notaðar í nýbyggingum hér á landi er líka hægt að nota til að brunahólfa.
Sjá hér meira um þetta atriði.
Það er hins vegar ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum almennings og stjórnmálamanna, flestir taka undir það að mikil menning hafi farið þarna forgörðum. Þetta finnst mér vera mikil kúvending þar sem ekki er svo ýkja lang síðan að stórmerkilegt hús var fjarlægt af Lækjargötu og flutt upp í Árbæjarsafn og reist í staðin hús sem gnæfði yfir söguslóðirnar og kennt hefur verið við jómfrúna. Enn styttra er siðan að elsti hluti Nýja Bíós skemmdist í eldi og var síðan rifið bókstaflega hljóðlaust í kjölfarið. Það hús hefði auðvitað átt að endurbyggja þar sem skelin var meira og minna í góðu lagi en í staðin var byggt hús sem var enn meira í ósátt við umhverfið heldur en sá hluti Nýja bíós sem reistur var í kringum 1960. Viðbrögðin í dag munu samt ekki tryggja að vel verði staðið að enduruppbyggingu á svæðinu. Um það þarf að standa vörð.
Slökkvilið og lögregla á vakt í alla nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.4.2007 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)