Fréttatilkynning frá stjórn Torfusamtakanna.

Stjórn Torfusamtakanna fagnar þeim hugmyndum sem birtast í
verðlaunatillögu í hugmyndaleit Reykjavíkurborgar, þar sem rík
áhersla er lögð á að varðveita og endurbyggja merkar gamlar byggingar
á svæðinu umhverfis Lækjartorg.

Einnig fagnar stjórnin þeirri ákvörðun borgaryfirvalda að
verðlaunatillagan verði grundvöllur nýs deiliskipulags á svæðinu.
Að mati stjórnarinnar setur verðlaunatillagan mikilvægt fordæmi um
hvernig standa megi að uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur í sátt við
umhverfið og með virðingu fyrir sögulegum menningararfi.

Sú staðreynd að tillagan er afrakstur samvinnu færustu ráðgjafa á
sviði húsverndar og þeirrar teiknistofu íslenskrar sem mestrar
virðingar nýtur á alþjóðavettvangi fyrir framsækna hönnun sýnir og
sannar að húsagerðararfur fyrri tíðar og nútímaarkitektúr geta vel
fléttast saman í sannfærandi heild þegar fagmennska og listrænn
metnaður ræður ferðinni í mótun og útfærslu hugmynda.

Með samkeppni þessari hefur Reykjavíkurborg stigið jákvætt skref í
átt til þess að lífga miðborgina. Við óskum borgarstjórn til hamingju
með ánægjulega niðurstöðu. Yfirlýsingar borgarstjóra og formanns
skipulagsnefndar eru uppörvandi og vekja vonir um að hugmyndum
þessum verði fylgt eftir af fullri einurð og metnaði.

Stjórn Torfusamtakanna

Snorri Freyr Hilmarsson, leikmyndateiknari.
Pétur Ármannsson, arkitekt.
Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur.
Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari.
Þórður Magnússon, tónskáld.


Mörg rök hníga að endurbyggingu

Hugmynd kollega míns um að fá erlendan arkitekt til að hanna mannvirki í miðborg Reykjavíkur er í sjálfu sér ekki svo galinn. Allir hafa gott af samkeppni, það á líka við um arkitekta. En hvers vegna endilega á horni Lækjargötu og Austurstrætis?

Reykjavík er langt frá því að verða fullbyggð borg. Í sannleika sagt eru auðar lóðir ásamt bílastæða-víðáttum eitt aðal einkenni höfuðborgarinnar. Auðar lóðir sem kalla á uppbyggingu standa í hrönnum víðs vegar í miðborginni. Það er orðið aðkallandi verkefni að klára reiti sem alltof lengi hafa öskrað á uppbyggingu. Ég nefni sem dæmi: vestari hluta Skuggahverfisins, svonefndan stjórnarráðsreit, reitinn fyrir neðan Arnarhól þar sem einu sinni var blómleg byggð en hefur að undanförnu verið nefndur Landsbankareitur, ég vil einnig nefna reitinn á milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis svonefndan Alþingisreit ásamt stórum auðnum á efri hluta Hverfisgötu, ótal reitir á Laugaveginum sem reyndar er byggðir en hefur þegar verið gefið niðurrifsheimild á....... ég gæti lengi haldið áfram að telja.

Götumyndir sem eru fullkláraðar teljast vera fágæti í borginni okkar og jafnvel þótt að það sjáist í brunagafla í Austurstræti verður sú gata að teljast ein af þeim.

(Með nýbyggingum er alltaf tekin ákveðin áhætta,) það eru ótalmörg dæmin þar sem skipt hefur verið út betri götumynd fyrir verri götumynd þar sem nýbyggingar hafa risið inn í eldri byggð. Í tilviki Lækjartorgs tel ég þetta vera óþarfa áhættu, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi áðan, það er engin skortur á lóðum fyrir arkitekta að spreyta sig.

Átjándu aldar húsaröðin öll, þar með talið Hressingarskálinn er fágæti. Með uppbyggingu húsanna sem skemmdust í brunanum er tækifæri til þess að færa húsin öll í það horf sem beðið hefur verið eftir í fjöldamörg ár. Skilaboðin með þessu til eigenda menningarverðmæta í miðborginn væru einnig skýr, Reykvíkingar hafa fengið nóg af fasteignamógúlum sem sitja á perlum miðborgarinnar og bíða færis að fá að rífa og byggja stærra, og þeir myndu gera sér grein fyrir að það eina skynsamlega í stöðuni er að gera þau sómasamlega upp.

Þórður Magnússon


mbl.is Austurstræti 22 rifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugavegsniðurrifið

Jón Torfason skrifar:

Vakningin í kringum Bernhöftstorfuna og stofnun samtaka í framhaldi af því átti mikinn þátt í að opna augu manna fyrir gildi gamalla húsa og manneskjulegs umhverfis. Víða úti á landi hafa sveitarstjórnir séð sóma sinn í að rækta menningararfinn og hlúa að gömlum byggingum. Á sama tíma hefur hvert stórslysið eftir annað riðið yfir Reykjavík. Menn hafa rifið gömul hús og sópað burt fornu byggðamunstri af algeru tillitsleysi í hjarta gamla bæjarins. Til að rýma fyrir ráðstefnuhúsi og bankahöll við gömlu höfnina var öllu rústað við austanvert Hafnarstræti og t.d. síðustu leifar gamalla uppskipunarmannvirkja eyðilagðar þegar Ziemsenhúsið var fjarlægt. Það stóð á upprunalegum stað og þar mátti sjá vörurennur sem lágu frá fornu neðan úr fjörunni í hús, nú allt horfið.

Það má líkja niðurrifi fornra menningarsögulegra merkra húsa við bókabrennur, og ekki bara brennur nokkurra eintaka af tiltekinni bók, heldur því að öllum – þ.e. undantekningarlaust öllum eintökum, skrifuðum og prentuðum, á spólum eða mynddiskum – er eytt. Það má hugsa sér að með húsunum tveimur, sem brunnu í miðbænum í vetur, hefðu brunnið tvær af Reykjavíkursögum Gests Pálssonar, t.d. Grímur kaupmaður deyr og Hans Vöggur, og þær séu nú aðeins til í bliknandi minni manna. Samt er eldurinn ekki stærsti skaðvaldurinn, aldrei verður hægt að koma algerlega í veg fyrir að hús brenni. Skeytingaleysi borgaryfirvalda og þeirra sem móta stefnuna í skipulagsmálum höfuðborgarinnar, þ.e. byggingarverktaka og peningamanna, er mörgum sinnum hættulegra en tilfallandi eldsvoðar þótt skelfilegir séu.

Og hvað kemur svo í staðinn, í hverju felst hin svokallaða "uppbygging" sem peningamennirnir róma svo mjög? Þegar farið er um ofanverðan Laugaveginn fer um mann hrollur við þá framtíð sem blasir við. Eftir að byggt var "upp" á Stjörnubíósreitnum svonefnda er á svæðinu ofan frá Hlemmi niður að Barónsstíg sviplausar húsalengjur. Byggt er á ystu lóðamörk til að hámarka nýtingarhlutfallið svo arkitektar, sem fá það vanþakkláta verkefni að teikna nýjar byggingar þarna, hafa litla möguleika til að "skapa" eitthvað eftirminnilegt. Enda er það svo að öll þau nýju hús, sem hafa verið byggð við Laugaveginn undanfarið, eru undantekningarlaust sviplítil og ljót, skrifstofu- eða íbúðarkumbaldar með risastórum rúðum á jarðhæð sem hafa engum öðrum boðskap til vegfarenda að miðla en að þar séu vörur til sölu.

Það er oft gaman að rölta um Laugaveginn, njóta fjölbreytninngar sem þar blasir þó enn við, velta fyrir sér byggingareinkennum gömlu húsanna og þeirri sögu sem þar varð til. Það eru ekki margar götur í heiminum þar sem sjá má jafn marga og ólíka byggingarstílarstíla á stuttri leið, en fjölbreytnin gerir Laugaveginn einmitt svo sérstakan og skemmtilegan. Þessu er nú markvisst verið að fórna. Í vor var eitt síðast sveitserhúsið, á Laugavegi 74, flutt í burt og boðað að fyllt verði í skarðið með sviplausum steinsteypukassa, byggingarmagnið nær fimmfaldað. Fyrirhugað er þó að byggja eftirlíkingu af framhlið gamla hússins. Húsin frá Vatnsstíg upp að Laugaveg 35 eru á dauðalistanum en verið að hanna risa stóra byggingu sem á að ná niður að Hverfisgötu. Og nú á næstu dögum fara svo Laugavegur 4-6 en eftir "uppbygginguna" þar kemur hornhúsið á mörkum Laugavegs og Skólavörðustígs til með að hanga utan í væntanlegu hótelbákni eins og hjákátlegt bíslag.

Skipulagsmálin í gamla bænum einkennast af algeru virðingarleysi fyrir menningarverðmætum og notalegu umhverfi. Manni flýgur stundum í hug að menn láti stjórnast af einhvers konar eyðileggingarhvöt. Svo mun þó ekki vera heldur er það aðeins skammsýn og hömlulaus gróðahyggja sem ræður. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra, því það verður aldrei hægt að bæta fyrir þann skaða sem verið er að vinna á gamla miðbænum um þessar mundir.


Fréttatilkynning frá Torfusamtökunum

Laugavegur 4-6

Stjórn Torfusamtakanna harmar þá niðurstöðu Skipulagsráðs Reykjavíkur að heimila niðurrif tveggja elstu húsanna við Laugaveg, á lóðunum nr. 4 og 6, og samþykkja jafnframt nýbyggingu, sem vegna hæðar og umfangs, samrýmist ekki mælikvarða og götumynd þessa elsta hluta Laugavegar. Hægur vandi hefði verið að prjóna við gömlu húsin og tengja þau nýrri uppbyggingu á reitnum með farsælum hætti og sameiginlega hagsmuni götunnar að leiðarljósi.

Nýja byggingin er óheppilegt fordæmi fyrir þróun Laugavegarins. Hún mun standa í elsta hluta götunnar, milli Skólavörðustígs og Bergstaðastræti, þar sem enn má sjá einkenni 19. aldar í byggðinni. Vesturendi byggingarinnar tekur lítið tillit til friðaðs húss, Laugavegar 2, sem nýlega hefur verið gert upp til mikillar prýði fyrir miðborgina. Gert er ráð fyrir fjögurra hæða húsi sunnan götunnar, einmitt þar sem kaupmenn og allir aðrir hafa lagt áherslu á að halda byggðinni lágri vegna sólarljóss í götunni. Auðveldlega hefði mátt samræma sjónarmið verslunar og húsverndar, t.d. með því að lyfta gömlu húsunum um eina hæð og bæta undir þau vönduðu verslunarrými, eins og hefð er fyrir við þessa götu. Þannig hefði verið unnt að ná fram yfirlýstum markmiðum um að verndun og uppbygging haldist í hendur, Laugavegur eflist sem verslunargata, en jafnframt væri haldið í mælikvarða og sögulegt yfirbragð elsta huta hennar.

Stjórn Torfusamtakanna harmar það enn fremur hversu lítið hefur farið fyrir kynningu á sjálfri hönnun nýbyggingarinnar áður en heimild var veitt fyrir niðurrifi. Að mati samtakanna hafa borgaryfirvöld gert mikil mistök með því að leyfa allt of mikið byggingarmagn á þessum reit, meira en samhengið þolir.

Undirritað: Stjórn Torfusamtakanna

Snorri Freyr Hilmarsson

Pétur H. Ármannsson

Guðjón Friðriksson

Áshildur Haraldsdóttir

Þórður Magnússon

Laugavegur 4 og 6. Tillaga að uppbyggingu þar sem núverandi hús á lóðunum eru endurbætt og stækkuð með hliðsjón af upphaflegum stíl.  Undir timburhúsunum er sýnd ný götuhæð með verslunarrými sem uppfyllir nútíma kröfur um lofthæð og aðgengi.  Aftan við gömlu húsin gæti komið nýbygging sem tengdi þau saman og væri lítt eða ekki sýnileg frá götunni.


mbl.is Torfusamtökin harma niðurrif á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugavegur 4-6

Sæl.

Það eina sem gæti komið í veg fyrir að Laugavegur 4-6 fjúki eins og komið er í dag, er að Reykjavíkurborg myndi kaupa húsin á uppsprengdu verði (þ.e. eins og þeir væru að borga fyrir 6 hæða hús). Það vægast sagt afskaplega ósennilegt að þeir geri það.

Það sem er sorglegast er að margir halda því fram að einungis hafi verið gefin heimild fyrir niðurrifi að svo stöddu og að nú sé loksins búið að ryðja hindruninni sem var í vegi fyrir því að arkitektar gætu spreytt sig á þessum reit. Það er misskilningur sem fjölmiðlar eiga þátt í vegna þess að þeir virðast sjaldan nenna að grafa til botns í neinum svona málum, lesa bara (rangt) upp úr fréttatilkynningum frá borginni. Það sem verið var að afgreiða á borgarráðsfundi um daginn var í raun ekki sjálft niðurrifið (eins og allir virðast halda, sjá t.d. leiðara fréttablaðsins) heldur var verið að gefa grænt ljós á byggingu sem búið er að teikna og hanna.

Sú bygging var hvergi sýnd í neinum fjölmiðlum en við ætlum að reyna að bæta úr því á næstu dögum. Það er líkast því að eitthvað laumuspil sé í gangi þar sem engin fær að sjá neitt fyrr en það er orðið fyrir löngu síðan of seint að mótmæla. Það hefur sýnt sig margoft að eina leiðin til að hafa eitthvað um þetta að segja er að mótmæla byggingarmagninu þegar það er til umræðu.

Ef að margir myndu taka sig til og skrifa í blöðin um þetta mál hjálpar það málstaðnum og jafnvel þó að þetta mál sé nokkurn veginn tapað þá hjálpar það öllum hinum húsunum sem bíða þess að verða rifinn.

Það sem við munum beita okkur fyrir er að benda á að þessi hús séu bara byrjunin á enn þá stærra ferli, nú er verið að leggja lokahönd á byggingu við Laugavegi 33-35 (og Vatnsstíg 4). Það er í raun rétti tíminn núna til að berjast fyrir þeim húsum, kannski með því að nýta sér þá athygli sem Laugavegur 4-6 hefur fengið. Einnig er verið að teikna hús þar sem 23 er(að mínu mati ósennilegt að því verði bjargað), svo 41-43-45 og að lokum á Laugavegi 19-21 + Sirkus og húsið þar sem Kaffi List var til húsa). Einnig veit ég til þess að þreifingar eru í gangi fyrir 27-29 þó svo að ekkert formlegt hafi komið þar fram.

Sjálfur mun ég leggja megináherslu á Laugaveg 29-27, 33-35 og 41-45. Þessi hús öll mynda afskaplega heillega húsaröð.


101 í hættu

101 í hættu



Hér vantar eld!

Mér finnst undarleg sú þráhyggja að vilja geyma helst öll gömul hús. Sérstaklega þykja mér bárujárnsklædd timburhús með afbrigðum ljót. Ég skil ekki þetta hálfvitalega snobb gagnvart ónýtum og ónothæfum húskofum af þessari gerð sem smíðaðir voru í sárri fátækt fyrir 60-100 árum.

Mér í finnst í lagi að halda kannski upp á örfá svona hús í sögulegu tilliti en það er móðgun við nútímafólk að binda jafnvel í lög og reglugerðir að þessar eldgildrur séu upp til hópa látnar standa. Mikill meirihluti fólks vill fá húsnæði sem hæfir tæknilegri og fjárhagslegri getu til að gera almennilegt húsnæði með alvöru notagildi. Síðan má alltaf deila um fagurfræði þeirra húsa sem byggð eru.

Miðbærinn í Reykjavík getur aldrei orðið neitt af viti á meðan þessi kofaverndarstefna er við lýði.

Verktaki Lóðabraskarason


mbl.is Ekið með hús um borgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga að athugasemdum

Ágæti félagi í Torfusamtökunum  Hér á eftir er bréf með athugasemdum vegna breytingar á deiliskipulagi reitsins Laugavegur 33-35 og Vatnsstígur 4.

 Skoða tillögu (PDF) 

    Þér er frjálst að afrita bréfið og senda á netfangið: skipulag@rvk.is 

    Þú þarft aðeins að kvitta undir bréfið með nafni, kennitölu og heimilisfangi í lokin.  Að sönnu væri þó enn áhrifaríkara að þú skrifir þitt eigið bréf hafir þú til tíma aflögu. Hægt er að sjá tölvuteiknaðar myndir af húsunum sem um ræðir hér: eldra blogg 

   

 Með von um góð viðbrögð

 Kveðjur 

 Áshildur Haraldsdóttir, Þórður Magnússon og Snorri Freyr Hilmarsson.

 ___________________________________________________________________

 Vinsamlegast staðfestið móttöku.

Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur

 Borgartúni 3, 105 Reykjavík

 Varðar: Laugavegur 33-35 og Vatnsstígur 4 (reitur 1.172.1), breyting á deiliskipulagi.

 Reykjavík, 12. júní 2007.

 -Ég undirrit-uð(aður) vil gera athugasemd við fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi á reit 1.172.1. sem afmarkast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vatnsstíg vegna lóðanna að Laugavegi 33-35 og Vatnsstígur 4.

 -Ég geri athugasemd við það að auka byggingarmagn án þess að fyrir liggi hvernig það verði útfært, reynslan af of miklu byggingarmagni er slæm þar sem erfitt getur reynst að hanna byggingu sem hæfir umhverfi sínu. Það ætti ekki að leyfa neinar breytingar á reitnum öðruvísi en fyrir liggi gæðahönnun sem gæti þá falið í sér að gömlu húsin á reitnum haldi sér að öllu eða verulegu leiti.. 

 -Ég geri athugasemd við að 8 sjálfstætt hönnuð hús séu látin víkja fyrir 1 stakri hönnun. Þetta rýrir augljóslega þann smágerða mannlega mælikvarða sem er eitt aðal einkenni eldri borgarhluta hvar sem er í heiminum og þá í leiðinni það atriði sem skapar miðbænum hvað mesta sérstöðu.

 -Ég vil benda á að í þessu tilfelli Laugavegs- Vatnsstígreits felst kjörið tækifæri til uppbyggingar sem sameinar nýbyggingar og húsvernd.  Það er hægur leikur að þyrma gömlu húsunum með því færa núverandi byggingarmagn til norð-austur hluta lóðarinnar þar sem bæði er auð lóð og Vatnsstígur 4 sem er sú bygging sem kannski auðveldast er að færa rök fyrir að víkji af þeim húsum sem hér um ræðir. Þar gætu risið nýbyggingar sem væru í meiri sátt við umhverfið og þær byggingar sem fyrir eru. 

 Í Reykjavík eru aðeins 591 hús sem eru jafn gömul eða eldri húsunum sex á Laugav.-Vatnstígssreit, þar af eru einungis u.þ.b. 70 hús eldri en elsti hluti Laugavegs 35. Þetta eru sárafá hús og aðeins 1.2 % af öllum húsum í borginni okkar. Nú þegar er heimilt að rífa 101 þessara húsa samkvæmt auglýstum deiliskipulögum borgarinnar. Byggingararfleifðin er yndisaukandi eign Reykjavíkinga allra ef ekki heimsbyggðarinnar sem okkur ber skylda til að varðveita en ekki þurrka út. Því væri mikill vísdómur fólgin í því að leyfa einungis aukið byggingarmagn með þeim kvöðum að gömlu húsin á reitnum haldi sér að öllu eða verulegu leiti og þar með væru tekin til baka mistök sem gerð voru með deiliskipulagi Laugavegs á sínum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá borgarminjaverði hafa umtöluð hús þó nokkuð mikið menningarsögulegt gildi og að þeirra áliti kemur til greina að stækka þau en láta þau bera ummerki um sögu sína. Húsaröðin frá Laugaveigi 27-35 er óvenju heilsteypt, húsin eru fádæma heilleg dæmi um byggingalist síns tíma, innviðir húsanna 33-35 eru óvenju upprunalegir miðað við önnur hús á Laugavegi og form húsanna hefur haldist óbreitt frá upphafi sem verður að teljast sem undantekning miðað við aldur þeirra.

 __________________________________

 Undirritaður


Laugavegur 33-35

Athugasemdafrestur rennur út á miðvikudag. Laugavegur 33-35 og Vatnsstígur 4

 Deiliskipulag reitsins. 

    Á þessum reit verða 6 bráðfalleg hús rifin til að rýma fyrir húsi sem er ekki á nokkurn hátt í skala við umhverfið. Þær teikningar sem sýndar hafa verið eru einnig fagurfræðilega metnaðarlausar og ekki þess virði að rífa hús sem eru langtum fremri bæði hvað varðar gæði og fagurfræði. Ég tel að þetta horn sé með þeim mikilvægari til þess að halda í sérkenni Laugavegs. Ég bið fólk um að láta ekki skeljasandinn á hornhússinu blekkja sig (húsið var og á að vera bárujárnsklætt), heldur frekar sjá þá möguleika sem felast í því að færa húsin í betra horf. Önnur hús á þessum reit, að undanskyldu Vatnsstíg 4 sem hefur líklega minnst varðveislugildi af þessum húsum, eru í fádæma góðu standi, jafnt að innan sem utan og í rauninni mjög sérstakt að þau hafa öll haldist nokkurn vegin í sínu upprunalegu formi. Athugasemdum verður að skila inn fyrir 13. júní til Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur Borgartúni 3, 105 Reykjavík.

Núverandi útlit


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

101 Í HÆTTU

- Langur laugardagur með Torfusamtökunum

Laugardaginn 2. júní n.k. efna Torfusamtökin til óvissugöngu um
Skuggahverfið og gamla bæinn í Reykjavík, enda ríkir mikil óvissa um
framtíð miðborgarinnar. Skoðuð verða farsæl dæmi um húsvernd í bland
við gömul, ný og yfirvofandi skipulagsslys.

Safnast verður saman á Vitatorgi (framan við Bjarnarborg á horni Vitastígs og Hverfisgötu) kl. 14:00. Pétur H. Ármannsson og Snorri Freyr Hilmarsson stýra leiðsögn.

Göngunni lýkur á tónlistardagskrá, Skjaldbreið til heiðurs, við Kirkjustræti 8a, kl. 15:30.
Hótel Skjaldbreið sem geymir einn elsta tónleikasal landsins er eitt þeirra fjölmörgu sögufrægu húsa í 101 sem eru í fallhættu.

Meðal tónlistarmanna sem koma fram eru:
Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari
Bryndís Halla Gylfadóttir, sellóleikari
Helga Þórarinsdóttir, víóluleikari
Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðluleikari
Sigurður Halldórsson, sellóleikari
Voces Thules

Allir velunnarar gamla bæjarins eru hvattir til að mæta.

TORFUSAMTÖKIN

Nánari upplýsingar veita stjórnarmenn í Torfusamtökunum:

Áshildur Haraldsdóttir s. 899 0857
Pétur H. Ármannsson s. 897 0319
Snorri Freyr Hilmarsson s. 861 3372
Þórður Magnússon s. 862 7068
------------------------------------------------------------------------------------
torfusamtok@gmail.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband