Áskorun til borgarstjóra

Ég undirrituð skora hér með á borgaryfirvöld og alla þá sem hafa með málið að gera að íhuga vandlega hvað það hefur í för með sér til frambúðar, að rífa eða fjarlægja (flytja) húsin við Laugaveg 4-6.
Þegar ég tala um áhrif til frambúðar þá á ég við, að svona framkvæmdir eru ekki afturkallaðar.
Þetta hefur ekki eingöngu með húsin sjálf að gera heldur heildarmynd menningar, sögu og ásjár miðbæjarkjarnans.
Þetta verður fólk að átta sig á og því fylgir ábyrgð að breyta ásýnd bæjarins svona stórkostlega.
Því skora ég á borgina að afturkalla fyrirhugað niðurrif og flutning á húsunum og byggja borgina frekar upp á þeim húsakjarna sem inniheldur söguna og raunveruleg verðmæti.

Virðingarfyllst

Sveinbjörg Jónsdóttir

teiknari, FÍT
_________________________________________
Sæll Dagur,

Ég vil hvetja þig til að varðveita fegurðina í miðbænum okkar.

Umfram allt með því að leyfa ekki nýbyggingar sem einkennast af stórum, flötum, mónótónískum húsgöflum úr gleri og steynsteypu. Sem eru háreistari en þau hús sem fyrir voru. Ef þetta kostar bætur til einhverra húseiganda við Laugaveginn vil ég frekar sem skattgreiðandi taka því.

Einar Sigvaldason
_________________________________________
Sæll Dagur - og gleðilegt nýtt ár.

Ég verð að leggja nokkur orð í belg vegna þróunarinnar sem á sér stað í miðbænum.

Til stendur að rífa húsin á Laugavegi 4 - 6. Það gæti orðið bara núna á næstu dögum. Þessi hús eru byggð annars vegar 1890 og hins vegar 1871. Þessi hús láta ekki mikið yfir sér. En það er einmitt kostur, til dæmis skyggja þau ekki mikið á sólina.

Á reitnum á að rísa fjögurra hæða steinsteypt hótel- og verslunarhús. Ég hef séð tillögur að þessari byggingu á teikniborðinu. Ég veit ekki hvernig teikningarnar líta út í dag – en það sem ég sá, var eins og stafli af örbylgjuofnum. Mjög svipað byggingunni sem reis á lóð Stjörnubíós við Laugaveginn. En einmitt efri hluti Laugavegarins, Hlemmur og nágrenni er mjög gott dæmi um hvernig gamli miðbærinn er að verða. Hann er farinn að minna á nokkrar ónefndar borgir á meginlandinu, sem voru svo illa sprengdar í stríðinu að ekki stóð steinn yfir steini. Þær voru endurbyggðar á ódýran og fljótlegan máta; beinar einfaldar línur, mikið af gleri og steinsteypu. En því miður eru þetta ekki þær borgir sem maður heimsækir til að hafa það huggulegt.

Það er hægt að byggja upp í miðborginni, þannig að hún haldi mikilvægi sínu – án þess að glata persónuleika hennar og sögu. En það þarf að gera með upplýstum hætti og af yfirsýn.

Mér skilst að Húsafriðunarnefnd hafi veigrað sér við að alfriða húsin, til að koma ekki í veg fyrir að þau yrðu hækkuð um eina hæð. En þessvegna sér verktakinn sér leik á borði - og ætlar að sópa þeim á brott, í eitt skipti fyrir öll. Þannig að nú er boltinn hjá þér, kæri borgarstjóri, að koma í veg fyrir enn eitt skipulagsslysið í miðbænum. Við höfum einfaldlega ekki lengur efni á meira niðurrifi. Það eru of mörg hús farin. Það skiptir ekki máli hvort að þau séu lítil, látlaus og kannski ómerkileg. Þau eru minnisvarðar. Það skiptir ekki heldur máli þó að lítið sé eftir af upprunalegu útliti húsana, eða að þau séu í slæmu ásigkomulagi. Ef þau eru rifin og fjögurrra hæða steinsteypt hótel eru byggð í staðinn, þá verður ekki aftur snúið.

Kær kveðja,

Óskar Jónasson,
kvikmyndagerðarmaður.
_________________________________________
Ágæti borgarstjóri

Vegna allara þeirra áforma um niðurrif húsa við Laugaveg og annars staðar í okkar gamla borgarhluta langar mig að segja eftirfarandi:

Sjálf hef ég endurbyggt tvö af eldri húsum borgarinnar (Gamla pósthúsið (1847) og Laufásveg 43 (1903)) og í bæði skiptin fengið lof - að verki loknu ! En margir vildu rífa húsin í stað endurbygginar í upphafi, en hugur þeirra er annar til slíks nú.

Húsið á Eyrarbakka - eitt elsta hús landsins - stóð til að rífa þegar afi minn Halldór Kr. Þorsteinsson og amma mín Ragnhildur Pétursdóttir voru beiðn af þjóðminjaverði að kaupa það til að bjarga því. Þau gerðu það. Þau höfðu kjarkinn til þess. Var það slæmt? Hefur einhver áform um að rífa það nú ? Ekki tókst að bjarga pakkhúsunum 1952, Kaupfélag Árnesinga reif þau og flutti viðina til Þorlákshafnar í skemmubyggingu sem síðar brann, Ég tel að enginn sé stoltur af því verki.

Í haust var ég í Kaupmannahöfn. Á hótelinu var kynningarblað um hvað væri markvert að sjá , og þar var vísað í gamla byggð gulra verkamannahúsa sem stand nálægt Nýhöfninni. Þau verða áreiðanlega ekki rifin héðan af. Öll voru þau í stíl víð Laugaveg 4 - 6 en bara 100 sinnum fleiri ! Ég trúi því að við stöndum ekki verr að varðveislu menningar okkar en Danir. Flestir íbúar allra landa voru og eru alþýðufólk, og sagan er þeirra og okkar allra. Byggingarsagan er sú sýnilegasta . Við eru líka stolt af henni, það má sjá af sýningunni 874 +/- 2. Hún er glæsileg. Varla var hún gerð ókeypis .

Ég skora á alla sem völd , þor og getu hafa að varðveita okkar arf, þótt sumir telji hann ómerkilegan. Það þóttu handritin líka nema hjá nokkrum sévitringum sem tóku þau í sínar hendur, Við getum svo sem ennþá etið þau ! Það má líka alltaf byggja seinna - landið fer ekki !

Með trú á að okkur takist að varðveita upphafið að uppbyggingu Reykjavíkur úr bæ í borg - Við höfum alltaf haft kjark, líka núna.

Sæll Borgarstjóri Reykjavíkur!
Dagur B. Eggertsson
_________________________________________
Ég hvet þig eindregið til að breyta um stefnu varðandi timburhús og hlaðin steinhús Reykjavíkur, sérstaklega í miðbænum. Þau eru öll gömul og börn síns tíma. Þau segja mikla sögu bara með tilvist sinni þar sem þau eru og skapa andrúmsloft, sem ekki er hægt að endurskapa með nýjum (steinsteyptum) húsum, jafnvel þótt þau taki hermimið af gömlu húsunum. Við höfum afskaplega lítið af fornum húsum og hýbýlum, og nú þegar er búið að rífa of mörg þeirra. Okkur ber því að vernda þau tiltölulega fáu sem eftir eru. Það er skynsamlegt út frá svo til öllum sjónarhornum séð, nema ef vera skyldi sjónarhorni auðmanna (og um það má meira segja deila).

Því hvet ég þig til að ...

í fyrsta lagi að friða Laugaveg 4 og 6 á þeim stað sem þau hús eru núna,

í öðru lagi að friða öll gömul timburhús og hlaðin steinhús í gamla hluta Reykjavíkur,

í þriðja lagi að setja bann á niðurrif allra timburhúsa og hlaðin steinhús í allri Reykjavík, nema með sérstökum undanþágum,

í fjórða lagi styrkja fólk og fyrirtæki með beinum eða óbeinum hætti (t.d. niðurfellingu fasteignaskatta) í að viðhalda gömlum timburhúsum og hlöðnum steinhúsum.

Og loks, þétting byggðar á ekki að vera á kostnað gömlu húsanna Reykjavíkur!

Bestu nýárskveðjur
Sighvatur Sævar
_________________________________________
Kæri borgarstjóri.
Það er von mín að þín verði minnst sem manns sem hafði kjark til þess að standa á móti niðurrifsöflum þeim sem hika ekki við að má burt söguleg verðmæti miðbæjarins.
Vegni þér vel,
Gylfi Baldursson
_________________________________________
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur

Ég undiritaður tek undir ályktanir Boston-fundar Torfusamtakanna
27.12. s.l. og skora á þig að leita allra leiða til að fyrirbyggja
óafturkræfar skemmdir á götumynd neðri hluta Laugavegar, sem
fyrirhugaðar eru með niðurrifi eða flutningi á húsunum við Laugaveg
4-6.

Virðingarfyllst

Jens A. Guðmundsson, læknir
Oddagötu 14
101 Reykjavík
_________________________________________


mbl.is Kúbein á lofti við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Burt með þessi hrófatildur :(

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.1.2008 kl. 17:56

2 Smámynd: Upprétti Apinn

Ég unddirritaður hef ekki hlegið jafn vel lengi eins og eftir að hafa lesið þessi bréf.

Ég legg til að allir bílar sem eldri eru en 20 ára verði verndaðir og eigendur þeirra skyldaðir til að keyra þeim og sjá til þess að viðhald þeirra verði viðeigandi.  Ég legg einnig til að bannað verði að selja gömul fiskveiðiskip og eigendur þeirra skuli reka þau á sama hátt.  Ég legg einnig til að bannað verði að breyta gömlum lögum og að enginn geti breytt um skoðun ef skoðunin er gömul.

Allt gamalt er gott.

Amen. 

Upprétti Apinn, 7.1.2008 kl. 20:06

3 Smámynd: Íslands-Bersi

Rífa þessi ömurlegu hús sem er búið að eyðileggja fyrir löngu eða selja þetta til útlanda til Nike því þarna voru þeirrar vörur seldar seinast 

Íslands-Bersi, 7.1.2008 kl. 21:21

4 Smámynd: Baldvin Mar Smárason

Ef það er haldið í Allt það gamla, þá missir það sjarman.

Höldum í það sem er vert að halda í, en hendum hinu draslinu.

Nike kofinn er rusl og ekkert annað, rusl...

Baldvin Mar Smárason, 7.1.2008 kl. 23:02

5 identicon

Burt með draslið og það fljótt.Sé ekkert merkilegt við þessa kofa sem gerir það þess virði að vernda með miklum kostnaði

sigurbjörn (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 23:22

6 Smámynd: Hlynur Hallsson

Tillögur Torfusamtakanna um endurbyggingu og nýtingu húsanna eru raunhæfar og flottar. Ég skora á Dag B. Eggertsson að guggna ekki í þessu máli. Þetta hótel getur verið næstum hvar sem er, bara ekki eyðileggja götumyndina. Niðrurifsraddirnar eru þreyttar en og gamlar, það þarf ekki endilega að friða þær:) Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 7.1.2008 kl. 23:30

7 Smámynd: Hinn pirraði

Kæri Dagur

Ég vil biðja þig um á lofa mér að vera á jarðítunni sem rífur þessi hús Ég er tilbúinn til þess að gera það án endurgjalds...... það er ef þú fyrirgefur mér þó ég láti nokkur önnur hús við laugaveg og hverfisgötu fljóta með Hinsvegar til að allir geri verið ánægðir vil ég benda á að við Njálsgötu Grettisgötu og Bergþjórugtu er gömul húsamynd og myndi sóma sér virkilega vel ef það yrði snyrt til og þau varðveitt En í guðs bænum rífum niður draslið fyr hinar 2 göturnar 

Hinn pirraði, 8.1.2008 kl. 00:12

8 Smámynd: Sturla Snorrason

Fjögra hæða glerkassi passar ekki á þennan stað.

Sturla Snorrason, 8.1.2008 kl. 00:15

9 identicon

"Þegar ég tala um áhrif til frambúðar þá á ég við, að svona framkvæmdir eru ekki afturkallaðar."

 

Ég held að það sé lámarks kurteisi að gera ekki ráð fyrir því að borgarstjóri sé hálfviti.

En ég styð það að fólk segji sína skoðun á þessu máli.  Tjái sig um það sem að skiptir það máli.  Sjálfur hef ég ekki stóra skoðun á þessu máli..  Nema að miðbærinn er í rúst.. Það þarf eitthvað að fara að gerast þar.. til batnaðar.. ;)

Þröstur Jóhannsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 08:25

10 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það er nú aldeilis búið að segja ýmislegt hér, en ég tek heilshugar undir hjá þeim sem vilja vernda þessi hús og önnur.
Ekki eyðileggja götumyndina, það er komið nóg af því.
Hlynur ritar: ,,þetta hótel getur verið næstum hvar sem er"
Það er rétt. Talað er um að húsin séu ónýt, en er þá ekki málið að gera við þau,
hefjast handa núna. " Strax". Og eigi bera það á borð fyrir þegnana ,
að eigi séu til peningar. þeir eru alla vega til í allt sem þeim dettur í hug.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.1.2008 kl. 09:40

11 identicon

Þetta eru forljótir fúahjallar og eiga að fara þó fyrr hefði verið.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 10:08

12 identicon

Samála, ömulegir skúrar, hvað ætli sé búið að bæta og breyta frá því að húsin voru byggð, væri ekki nær að nota þetta fjármagn annað en að púkka upp þessi hús

Arnbjörn (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 13:34

13 Smámynd: Upprétti Apinn

Þessi hús hafa aldrei verið merkilegar byggingar í borginni og nú eru Torfusamtökin að taka þátt í tilraunum til að "gera þessi hús upp" í anda gamla tímans.  Ekki eins og húsin voru heldur í "anda" rómantískrar hugmynda um betri fortíð.  Það á semsagt að breyta þeim í gerfi-fornleifar og láta líta út fyrir að vera merkilegar byggingar en þær voru.

Þetta er á engan hátt frábrugðið völkisch stefnu Þýska Nasistaflokksins og hætti að vera fyndin fyrir stríð.

Upprétti Apinn, 8.1.2008 kl. 16:14

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst alveg skeflilegt að lesa þann hug sem hér sést hjá sumum til gamalla húsa: kofar, hrófatildur, fúahjallar, drasl  og jafnvel brigls um nasisma. Það er líka eins og logi eitthvað lostafullt hatur í þessum ummælum, hlægjandi fyrirlitning. Hvað veldur slíku? Stefán Snævarr heimspekingur  kallar það fólk plebbakynslóðina sem skynjar ekkert af fortíðinni og sögunni og lifir bara í gapandi tómarúmi.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.1.2008 kl. 16:43

15 identicon

Torfusamtökin eru að verða ofurTorfusamtök, vilja verja hvaða fúnu ljótu spýtu sem til er.
Beint í sorpu með þessa ljótu kofaskrifli

DoctorE (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 18:28

16 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég verð að furða mig á þessari umræðu - hélt að hún tilheyrði löngu liðnum tíma.
Það eru tvær aðalástæður fyrir því að það ber að vernda gömul hús en ekki rífa.
Í fyrsta lagi eru þau arfur liðinna tíma og standa fyllilega fyrir sínu sem slík. Dæmin sanna eins og t.d. á Bernhöftstorfunni (Lækjarbrekka, Humarhúsið) að uppbygging gamalla húsa getur verið til slíks sóma að eftir á furða menn sig á að nokkrum hafi dottið í hug að rífa þau - já það stóð til að rífa þessi hús.
Í öðru lagi er arkitektum og enn síður byggingarverktökum treystandi til að byggja í grónum hverfum - dæmin sanna það. Ég get bent á Ráðhús Reykjavíkur, stúdentagarðana við Lindargötuna, allar núbyggingar við Laugaveginn og svo framvegis. Það er eins og að íslendingum sé með öllu fyrirmunað að byggja ný hús sem samræmast þeirri byggð sem er í kring. Það í sjálfu sér eru rök fyrir því að endurgera gömul hús en ekki byggja ný. 

Ef að við sjáum fyrir okkur 4 - 5 hæða byggingu í nútíma stíl við laugaveg 4 - 6 þá erum við að tala um skuggastrætið Laugaveg og byggingu sem er meira og minna dauð. Ég vinn við hótelrekstur og veit að það er líf í kringum hótel á sumrin og einstaka helgar á vetrum, annars eru þetta hljóðar, mannlausar byggingar. Ég veit ekki um ástæðu þess að fórna stæði við aðalverslunargötu Reykjavíkur í hótel. Það gerir ekkert fyrir Laugaveginn og miðbæinn þó það geti hugsanlega gert eitthvað fyrir þá sem að slíku standa.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.1.2008 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband