Áskorun til borgarstjóra

Ég undirrituð skora hér með á borgaryfirvöld og alla þá sem hafa með málið að gera að íhuga vandlega hvað það hefur í för með sér til frambúðar, að rífa eða fjarlægja (flytja) húsin við Laugaveg 4-6.
Þegar ég tala um áhrif til frambúðar þá á ég við, að svona framkvæmdir eru ekki afturkallaðar.
Þetta hefur ekki eingöngu með húsin sjálf að gera heldur heildarmynd menningar, sögu og ásjár miðbæjarkjarnans.
Þetta verður fólk að átta sig á og því fylgir ábyrgð að breyta ásýnd bæjarins svona stórkostlega.
Því skora ég á borgina að afturkalla fyrirhugað niðurrif og flutning á húsunum og byggja borgina frekar upp á þeim húsakjarna sem inniheldur söguna og raunveruleg verðmæti.

Virðingarfyllst

Sveinbjörg Jónsdóttir

teiknari, FÍT
_________________________________________
Sæll Dagur,

Ég vil hvetja þig til að varðveita fegurðina í miðbænum okkar.

Umfram allt með því að leyfa ekki nýbyggingar sem einkennast af stórum, flötum, mónótónískum húsgöflum úr gleri og steynsteypu. Sem eru háreistari en þau hús sem fyrir voru. Ef þetta kostar bætur til einhverra húseiganda við Laugaveginn vil ég frekar sem skattgreiðandi taka því.

Einar Sigvaldason
_________________________________________
Sæll Dagur - og gleðilegt nýtt ár.

Ég verð að leggja nokkur orð í belg vegna þróunarinnar sem á sér stað í miðbænum.

Til stendur að rífa húsin á Laugavegi 4 - 6. Það gæti orðið bara núna á næstu dögum. Þessi hús eru byggð annars vegar 1890 og hins vegar 1871. Þessi hús láta ekki mikið yfir sér. En það er einmitt kostur, til dæmis skyggja þau ekki mikið á sólina.

Á reitnum á að rísa fjögurra hæða steinsteypt hótel- og verslunarhús. Ég hef séð tillögur að þessari byggingu á teikniborðinu. Ég veit ekki hvernig teikningarnar líta út í dag – en það sem ég sá, var eins og stafli af örbylgjuofnum. Mjög svipað byggingunni sem reis á lóð Stjörnubíós við Laugaveginn. En einmitt efri hluti Laugavegarins, Hlemmur og nágrenni er mjög gott dæmi um hvernig gamli miðbærinn er að verða. Hann er farinn að minna á nokkrar ónefndar borgir á meginlandinu, sem voru svo illa sprengdar í stríðinu að ekki stóð steinn yfir steini. Þær voru endurbyggðar á ódýran og fljótlegan máta; beinar einfaldar línur, mikið af gleri og steinsteypu. En því miður eru þetta ekki þær borgir sem maður heimsækir til að hafa það huggulegt.

Það er hægt að byggja upp í miðborginni, þannig að hún haldi mikilvægi sínu – án þess að glata persónuleika hennar og sögu. En það þarf að gera með upplýstum hætti og af yfirsýn.

Mér skilst að Húsafriðunarnefnd hafi veigrað sér við að alfriða húsin, til að koma ekki í veg fyrir að þau yrðu hækkuð um eina hæð. En þessvegna sér verktakinn sér leik á borði - og ætlar að sópa þeim á brott, í eitt skipti fyrir öll. Þannig að nú er boltinn hjá þér, kæri borgarstjóri, að koma í veg fyrir enn eitt skipulagsslysið í miðbænum. Við höfum einfaldlega ekki lengur efni á meira niðurrifi. Það eru of mörg hús farin. Það skiptir ekki máli hvort að þau séu lítil, látlaus og kannski ómerkileg. Þau eru minnisvarðar. Það skiptir ekki heldur máli þó að lítið sé eftir af upprunalegu útliti húsana, eða að þau séu í slæmu ásigkomulagi. Ef þau eru rifin og fjögurrra hæða steinsteypt hótel eru byggð í staðinn, þá verður ekki aftur snúið.

Kær kveðja,

Óskar Jónasson,
kvikmyndagerðarmaður.
_________________________________________
Ágæti borgarstjóri

Vegna allara þeirra áforma um niðurrif húsa við Laugaveg og annars staðar í okkar gamla borgarhluta langar mig að segja eftirfarandi:

Sjálf hef ég endurbyggt tvö af eldri húsum borgarinnar (Gamla pósthúsið (1847) og Laufásveg 43 (1903)) og í bæði skiptin fengið lof - að verki loknu ! En margir vildu rífa húsin í stað endurbygginar í upphafi, en hugur þeirra er annar til slíks nú.

Húsið á Eyrarbakka - eitt elsta hús landsins - stóð til að rífa þegar afi minn Halldór Kr. Þorsteinsson og amma mín Ragnhildur Pétursdóttir voru beiðn af þjóðminjaverði að kaupa það til að bjarga því. Þau gerðu það. Þau höfðu kjarkinn til þess. Var það slæmt? Hefur einhver áform um að rífa það nú ? Ekki tókst að bjarga pakkhúsunum 1952, Kaupfélag Árnesinga reif þau og flutti viðina til Þorlákshafnar í skemmubyggingu sem síðar brann, Ég tel að enginn sé stoltur af því verki.

Í haust var ég í Kaupmannahöfn. Á hótelinu var kynningarblað um hvað væri markvert að sjá , og þar var vísað í gamla byggð gulra verkamannahúsa sem stand nálægt Nýhöfninni. Þau verða áreiðanlega ekki rifin héðan af. Öll voru þau í stíl víð Laugaveg 4 - 6 en bara 100 sinnum fleiri ! Ég trúi því að við stöndum ekki verr að varðveislu menningar okkar en Danir. Flestir íbúar allra landa voru og eru alþýðufólk, og sagan er þeirra og okkar allra. Byggingarsagan er sú sýnilegasta . Við eru líka stolt af henni, það má sjá af sýningunni 874 +/- 2. Hún er glæsileg. Varla var hún gerð ókeypis .

Ég skora á alla sem völd , þor og getu hafa að varðveita okkar arf, þótt sumir telji hann ómerkilegan. Það þóttu handritin líka nema hjá nokkrum sévitringum sem tóku þau í sínar hendur, Við getum svo sem ennþá etið þau ! Það má líka alltaf byggja seinna - landið fer ekki !

Með trú á að okkur takist að varðveita upphafið að uppbyggingu Reykjavíkur úr bæ í borg - Við höfum alltaf haft kjark, líka núna.

Sæll Borgarstjóri Reykjavíkur!
Dagur B. Eggertsson
_________________________________________
Ég hvet þig eindregið til að breyta um stefnu varðandi timburhús og hlaðin steinhús Reykjavíkur, sérstaklega í miðbænum. Þau eru öll gömul og börn síns tíma. Þau segja mikla sögu bara með tilvist sinni þar sem þau eru og skapa andrúmsloft, sem ekki er hægt að endurskapa með nýjum (steinsteyptum) húsum, jafnvel þótt þau taki hermimið af gömlu húsunum. Við höfum afskaplega lítið af fornum húsum og hýbýlum, og nú þegar er búið að rífa of mörg þeirra. Okkur ber því að vernda þau tiltölulega fáu sem eftir eru. Það er skynsamlegt út frá svo til öllum sjónarhornum séð, nema ef vera skyldi sjónarhorni auðmanna (og um það má meira segja deila).

Því hvet ég þig til að ...

í fyrsta lagi að friða Laugaveg 4 og 6 á þeim stað sem þau hús eru núna,

í öðru lagi að friða öll gömul timburhús og hlaðin steinhús í gamla hluta Reykjavíkur,

í þriðja lagi að setja bann á niðurrif allra timburhúsa og hlaðin steinhús í allri Reykjavík, nema með sérstökum undanþágum,

í fjórða lagi styrkja fólk og fyrirtæki með beinum eða óbeinum hætti (t.d. niðurfellingu fasteignaskatta) í að viðhalda gömlum timburhúsum og hlöðnum steinhúsum.

Og loks, þétting byggðar á ekki að vera á kostnað gömlu húsanna Reykjavíkur!

Bestu nýárskveðjur
Sighvatur Sævar
_________________________________________
Kæri borgarstjóri.
Það er von mín að þín verði minnst sem manns sem hafði kjark til þess að standa á móti niðurrifsöflum þeim sem hika ekki við að má burt söguleg verðmæti miðbæjarins.
Vegni þér vel,
Gylfi Baldursson
_________________________________________
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur

Ég undiritaður tek undir ályktanir Boston-fundar Torfusamtakanna
27.12. s.l. og skora á þig að leita allra leiða til að fyrirbyggja
óafturkræfar skemmdir á götumynd neðri hluta Laugavegar, sem
fyrirhugaðar eru með niðurrifi eða flutningi á húsunum við Laugaveg
4-6.

Virðingarfyllst

Jens A. Guðmundsson, læknir
Oddagötu 14
101 Reykjavík
_________________________________________


mbl.is Kúbein á lofti við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er gott sem vel er meint

Það eru óneitanlega góðar fréttir að húsunum við Laugaveg 4-6 verði ekki hent á haugana eins og útlit var fyrir. Eitt af elstu húsum Reykjavíkur átti betra skilið. Það að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vilji gera húsunum hátt undir höfði á nýjum stað er þakkar vert og jafnframt viðurkenning á sögulegu og menningarlegu mikilvægi þeirra.

Kjarni málsins er hins vegar sá að eftir sem áður verður samfelld 19. aldar húsaröð varanlega skemmd. Húsaröð sem nær nokkuð óslitið frá Lækjargötu að apótekinu við horn Vegamótastígs.

Borgarstjóri getur stigið skrefið til fulls og bjargað götunni og hámarkað þannig framtíðarverðmæti Laugavegar sem verslunargötu.


mbl.is Laugavegshúsunum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bostonfundur, áskorun til borgarstjóra.

Af fundinum á Boston við Laugaveg má ljóst vera að það er mikil undirliggjandi gremja og ótti vegna þess hvert stefnir með Laugaveg og gamla bæinn. Fyrirhugað niðurrif er fyrirbæri sem orðið hefur til án þess að endurspegla gildismat og væntingar þeirra sem kosið hafa að búa og starfa í gamla bænum, vegna þess sem gamli bærinn er og gæti orðið, væri rétt að málum staðið.

Fundurinn var mjög vel sóttur, staðurinn var þéttsetinn og fólk stóð hvarvetna, í stigum og út á götu, svo margir urðu frá að hverfa.

Margt var reifað en nokkur þeirra helstu atriða sem komu fram á fundinum eru:

-Það er skylda borgarinnar að endurskoða aðalskipulag og þar með deiliskipulag í hvert sinn sem nýr meirihluti tekur við svo það endurspegli gildismat og væntingar íbúanna til umhverfisins eins og það er á hverjum tíma. Nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur því öll spil á hendi að snúa við þeirri óheillaþróun sem núgildandi skipulag og deiliskipulag svæðisins býður heim.

-Meginatriði fundarins var því áskorun til borgarstjóra að leita allra leiða til að þyrma húsunum við Laugaveg 4 – 6 og snúa frá niðurrifsstefnunni.

-Áskorun þar um þurfa sem flestir að senda borgarstjóra svo hann sjái að fólki er ekki sama um eyðileggingu miðbæjarins. Netfang borgarstjóra er:

  borgarstjori@reykjavik.is

-Með þátttöku skapast tækifæri til að snúa þessari þróun við. Það er því afar mikilvægt að sem flestir sendi borgarstjóra skeyti eða bréf og lýsi hug sínum. Annaðhvort stuttlega með eigin orðum eða nýti sér punkta frá Torfusamtökunum. Torfusamtökin hafa þegar komið slíkum áskorunum á framfæri við borgarstjóra.

-Það eru veigamikil rök til þess að í Reykjavík, rétt eins og í öðrum borgum Evrópu, skipti samstæð heild í hinum sögulega miðbæjarhluta borgarinnar mestu máli þegar kemur að því hvernig slíkir bæjarhlutar virka sem menningarlegt hjarta borgarinnar, auk þess sem þeir laða að sér fjárfestingu til borgarinnar allrar.

-Í þessu tilliti er Reykjavík 30 árum á eftir því sem tíðkast í Evrópu þar sem áhersla er lögð á að endurheimta þau gæði sem gömlu bæjarhlutarnir hafa uppá að bjóða.

-Það eru því ríkir almannahagsmunir í húfi að snúið verða frá þeirri stefnu niðurrifs sem verið hefur við lýði allt frá 1962 og jafnvel lengur. Verndun Laugavegar 4 – 6 er því mikilvægt merki um að nýr meirihluti vilji endurskoða þessa stefnu.

-Torfusamtökin hafa undanfarið sýnt fram á að framtíðartækifæri Reykjavíkur, bæði menningarlega og fjárhagslega, eru fólgin í virðingu fyrir byggingararfinum. Slík tækifæri hafa verið nýtt, t.d. með uppbyggingu á Torfunni, í Aðalstræti og á fleiri stöðum í gamla bænum, er sýna að verndun er verðmætasta uppbyggingin. Sú friðun húsa sem nú stefnir í allt í kring um laugaveg 4-6, það er húsanna við Laugaveg 2, 10, 11 og 12, gerir Laugaveg 4-6 að slíku tækifæri þar sem hægt er að auka gæði heildarinnar ríkulega í stað þess að rýra hana.

Hér á eftir koma minnispunktar sem við settum saman varðandi Laugaveg 4 og 6.

1. Það er til lausn sem hæfir metnaði borgarinnar þar sem saga götunnar lifnar og vernd og uppbygging fara saman. Hjörleifur Stefánsson hefur tekið saman greinargerð þar sem fram kemur áætlaður kostnaður við það að fara þá leið sem Torfusamtökin hafa bent á. Hægt er að byggja gott verslunarrými undir húsin og nýta pláss á milli þeirra sem og bak við til að ná fram stórum hluta af því byggingarmagni sem samþykkt hefur verið. Tillaga Torfusamtakann er í raun mun meira í ætt við það sem sett var fram í deiliskipulaginu frá 2003 bæði hvað varðar byggingarmagn og nýtingu.

2. Bæði húsin eru meðal allra elstu húsa í Reykjavík, eldra húsið er frá 1871 og það yngra frá 1890.

3. Samkvæmt áliti Borgarminjavarðar stóð til að húsin tvö yrðu varðveitt. Í deiliskipulagsvinnu var þessu hins vegar snúið á hvolf og lagt til að öll hús á reitnum ættu að fara, þar á meðal friðað hús, Laugavegur 2.  Húsafriðunarnefnd og Borgarminnjavörður kusu að gera málamiðlun til að bjarga Laugavegi 2 frekar en að standa fast á sínu, þennan viðsnúning verður þó að skoða í því ljósi að umræðan á þessum tíma var almennt neikvæð varðandi gamla bæinn og þau því undir mikilli pressu.

4. Þau standa í elsta hluta götunnar og eru tenging verslunargötunar við einn best varðveitta hluta miðbæjarins, þ.e. Þingholtin. Þau standa einnig mitt á milli húsa sem eru friðuð eða eru á leiðinni að verða friðuð. Húsaröðin frá Bankastræti 2 (Bernhoftsbakarí) og að Laugavegi 12b eða jafnvel 16 verður að teljast afskaplega heilleg og hefur í heild sinni mikið varðveislugildi. Verðmæti götunnar í heild sinni mun tvímælalaust rýrna mikið með tilkomu byggingar sem er í jafn lítilli sátt við umhverfið og raun ber vitni. Bygging sem er í hróplegu ósamræmi við þá viðleitni í átt að verndun sem sýnd hefur verið að undanförnu m.a. með tillögu að friðun 10 húsa við Laugaveg.

5. Fyrrnefndur spotti er án efa meðal fjölförnustu göngu-leiða erlendra ferðamanna um borgina.

6. Nýbyggingin kemur til með að standa sólarmeginn og mun skyggja á frekar sólríkan stað á Laugavegi.   Í könnun sem gerð var nýlega þar sem kannað voru tilfinningar fólks gagnvart tilteknum svæðum í RVK, kom í ljós að fólk var í meira lagi jákvætt gagnvart neðsta hluta Laugavegar og er það að öllum líkindum m.a. því að þakka hvað núverandi hús eru lágreist og skyggja lítið á sólu, einnig hafa aðrar kannanir bent á það að fólki líður vel í sögulegu umhverfi. Að sama skapi kom í ljós að tilfinningar fólks voru í neikvæðari kanntinum gagnvart efri hluta Laugavegar þar sem byggðin er bæði háreistari og nýrri.

7. Aðkoma bæði Húsafriðunarnefndar og Rýnihópsins voru ekki í samræmi við gefin loforð. Nánar er farið í þetta í meðfylgjandi gögnum en við þau má bæta að umboð rýnihópsins var naumt og stjórnsýsluleg staða óljós. Einnig má nefna að Húsafriðunarnefnd neitaði að taka endanlega afstöðu til niðurrifs þessara húsa nema fyrir lægi hvernig unnið væri með götumyndina. Byggingarfulltrúi veitti að lokum endanlegt byggingar-leyfi þó svo að úrskurður lægi ekki fyrir frá Húsafriðunarnefnd.

8. Reynslan af þessum húsum segir okkur að ekki er lengur nóg að rýna á húsin ein og sér, þegar ákvörðun um varðveislu er tekin, heldur þarf að meta þau tækifæri sem eru í hverju tilviki að skapa stærri heildir, óháð gildi einstakra húsa og nýtingu þeirra. Það var ekki síst það sem mönnum yfirsást í þessu tilviki, tækifærið til að mynda eina heild úr elsta hluta Laugavegarins. Afskræmt og niðurnítt útlit húsanna í núverandi mynd og annmarkar á notagildi þeirra (smæð) í núverandi mynd var það sem horft var á, auk þess sem menn höfðu ekki ímyndunarafl (eða vilja) til að finna aðrar lausnir.

9. Hitt er að það er ekki hægt að redda of miklu byggingarmagni á lóð með útlitshönnun nýbygginga einni og sér, sama hvað menn reyna. Ef magnið er of mikið fyrir reitinn, getur enginn arkitektúr bjargað því. Með nýbyggingunni við Laugaveg verður til brunagafl upp að nýlega friðuðu húsi. Ólíkt gömlu brunagöflunum frá fyrri hluta 20. aldar sem áttu sér gildar sögulegar skýringar verður byggt upp af þessum brunagafli. Því á hann engan rétt á sér, heldur verður hann tákn um skipulagsmistök við úthlutun byggingarmagns.

10. Með hliðsjón af því lóðabraski sem einkennt Laugaveginn síðustu ár, og má þar sérstaklega nefna Laugaveg 74 þar sem lóðin ásamt byggingarrétti var komin í sölu tæplega viku eftir að búið var að fjarlægja gamla húsið, er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja að þessi saga endurtaki sig ekki hvað varðar Laugaveg 4 og 6. Allt bendir til þess að húsin tvö verði fjarlægð af lóðinni í byrjun nýs árs, eftir að jólaverslun lýkur. Þegar "vandamálið" (þ.e. gömlu húsin) eru úr sögunni, verður þá eigendunum frjálst að hefja blómleg viðskipti og innleysa kótagróða sinn af því ríflega byggingarmagni sem þeim hefur verið úthlutað í deiliskipulagi á kostnað heildarmyndar götunnar? Við getum ekki fullyrt ekki að sú verði raunin, en bendum á að með því að heimila niðurrif húsanna er um leið búið að útiloka þann kost að endurreisa elsta hluta götunnar t.d. á þann hátt sem Torfusamtökin settu fram í formi tillögu fyrr á þessu ári. Meðan húsin standa er ekki of seint að vinda ofan af þessu máli og nýta það tækifæri sem hér er til að endurreisa þennan elsta hluta götunnar með þeim hætti sem nú tíðkast í miðbæjum evrópska borga með virðingu fyrir sögulegu umhverfi að leiðarljósi.

Réttlætt fórnun?

Við erum þjóð.

 Við erum um 304 þús og um 170 þús af okkur versla vörur og stunda vinnu

 Við erum með sex verslunarmiðstöðvar eða kjarna á höfuðborgarsvæðinnu

Í þeim eru allavega 4 búðir uppí 30 búðir, meiri hlutinn með yfir 15 búðir

Við förum í þúsindum saman inní eina byggingu undir þeirri undirskrift að:

Hérna eru bestu kaupin, gæðin, afgreiðsla og aðstæða

Og er það nóg til þess að við fórnum sögufrægum stöðum, vegum og verslunum eða skemtistöðum fyrir?

Ég segi nei og ég veit að þið gerið það líka, persónulega hata ég þessar risa vöxnu fjós sem við kjöggumst inní kýreygð til að láta stórbóndana mjólka okkur eftir oft allt erfiðan dag á túninu.

Ég heiti Hjálmar Karl og ég elska laugarveginn, ég finn allt sem mér girnist á laugavegi, ég mér minningar, góðar eða slæmar sem ég vill ekki miss frá þessari götu og mér finnst ég hafa rétt afþví að ákveða hvað gerist fyrir aðall götuna okkar sem íslendingur, ég vill ekki að hún verði notuð til að búa til eitthverjar tilganglausa fjármuni í 15-20 ár þegar mörg þessa bygginga hafa veit okkur tilfinninga,sögulegt og minningarlegt gildi í fleiri áratugi!

 Mér langaði bara að skrifa hér og sýna stuðning minn, ég mæli með því að þið gerið það

Ég er tvítugur með dislexíu en ég samt skrifaði eitthvað, bara eitthvað smá til þess að sýna að mér væri sama! 

 

Hjálmar Karl

NIÐUR MEÐ FRAMKVÆMTIR SEM EIGA SÉR ENGAN ENGAN ENGAN TILGANG! 


Endilega skrá sig í Torfusamtökin

Við viljum eindregið hvetja alla, sem láta sig þessi mál varða, skrá sig í Torfusamtökin. Það hefur sýnt sig að það er hægt að hafa áhrif.

Stóran meirihluta af því niðurrifi sem uppi eru áform um, er hægt að koma í veg fyrir ef almenningur krefst þess.

Torfusamtökin eru einnig kjörinn vettfangur fyrir allar umræður um þessi mál, þannig að burtséð frá því hvað fólki finnst um einhver ákveðin tiltekin hús, skráið ykkur.

Best er að senda tölvupóst á

  torfusamtokin@hive.is

Kær kveðja

Þórður

mbl.is Rætt um niðurrif í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Ég vil óska seyðfirðingum til hamingju með samstöðuna sem þeir sýndu í þessu máli.

Þessi niðurstaða sannar að almenningur getur haft áhrif ef hann kærir sig um. Við þurfum svo sannarlega að vera meira meðvituð um umhverfið okkar og skipta okkur af þegar okkur blöskrar, hvort sem um ræða náttúru landsins eða menningarverðmæti.

Það hefði verið óskandi ef að Reykvíkingar hefðu sýnt samskonar fyrirhyggju þegar innréttingarnar í Eimskipafélagshúsinu voru eyðilagðar ekki fyrir svo löngu síðan eða þegar Lækjargata 16 var "hreinsuð" að innan.

Ég vona að hér eftir munum við í Reykjavík taka okkur Seyðfirðinga til fyrirmyndar í þessum málaflokki.


mbl.is Hætt við niðurrif verslunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naustareitur, reitur 1.132.1.

Ég vil eindregið hvetja fólk til að kynna sér þá breytingu á deiliskipulagi Naustareitsins.

 http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-1604/2425_read-8917 

Þetta er síður en svo alslæmt en þó ýmislegt sem hugsanlega mætti betur fara. Helst er það fyrirhugað niðurrif á Tryggvagötu 14 sem vekur upp spurningar. Húsið er á reit þar sem í gildi er verndun byggðamunsturs þannig að það var ekki haft á listanum sem við bjuggum til yfir þau 101 hús sem má rífa samkvæmt deiliskipulagi, þetta hús bætist nú við þann hóp. Sumir telja þetta hús vera ónýtt og við eigum eftir að kynna okkur þær forsendur sem þar liggja að baki, en því er reyndar alltaf haldið fram þegar einhver aðili vill losna við hús. Skemmst er að minnast Skjaldbreiðar eða gamla Kaupfélagshússins í Borgarnesi, sem við nánari skoðun reyndust stráheil.

Annað sem fram kemur í deiliskipulagsbreitingunni er, að þau áform sem uppi hafa verið um að flytja Gröndalshús upp í Árbæjarsafn, eru fest í sessi. Þetta er því tilvalið tækifæri til að koma þeim skilaboðum til borgaryfirvalda að nú þegar hafi verið brotin upp nógu mörg skörð í tanngarði miðborgarinnar. Nú er tími til kominn að fylla upp í þau skörð. Það eru ótal lóðir sem koma til greina sem fluttningshúsalóðir fyrir Gröndalshús. Ég persónulega tel ekki forsendur fyrir því að mótmæla því útaf fyrir sig að Gröndalshús sé flutt en ég tel að sú regla eigi að gilda að ef að það þarf að flytja hús, ætti að flytja þau sem stystu leið frá sínum heimahögum og út úr miðborginni ætti það alls ekki að fara. Ég mun fjalla nánar um þetta þegar nær dregur skilafresti athugasemda sem er 11. janúar.

Takk fyrir fundinn 101 Tækifæri

Til stjórnar Torfusamtakanna

Ég vil þakka ykkur fyrir þennan áhugaverða fund í gær.
Reikna þó með að flestir sem þar voru séu þegar frelsaðir,
og vona að leiðir finnist til að fylgja efni fundarins nánar eftir,
eins og kynningu Margrétar.

Framlagi Sigmundar þarf einnig að koma á framfæri í gegnum fjölmiðlana.
Það gæti verið trompið.
Fyrir flesta yrði það algjörlega nýr flötur á hinni opinberu umræðu
um húsverndun og skipulagsmál, og kveikir örugglega í mörgum sem
hingað til hafa kært sig kollótta um arf sögu, menningar og byggingalistar.
-------------------------------------------------------------------------------
Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að afsaka hugmyndina um 'heim' flutning Lækjargötu 4,
heldur eins og fram kom á fundinum, að taka næsta skref áfram um
að flytja húsin úr Árbæjarsafninu og aftur 'heim' til sín niður í bæ.

Bílastæðin í borginni eru einmitt augntóttir þessara húsa.

Minjasafn Reykjavíkur (húsadeild) hefur ekki síður hlutverki að gegna við þau áfram þar
þótt í þeim búi og starfi fólk.

Það þarf hins vegar aðra hugsun og nýja sýn.

Kveðja,
Guðríður Adda Ragnarsdóttir.

101 TÆKIFÆRI

Fréttatilkynning.

Torfusamtökin efna til fundar, í Iðnó næstkomandi laugardag kl. 14.00, um framtíð miðbæjarins undir yfirskriftinni 101 tækifæri.
Hvert ætti gildi og hlutverk byggingararfsins að vera í uppbyggingu Laugavegar og Kvosarinnar?

Meðal frummælanda eru Eva María Jónsdóttir,dagskrárgerðarkona,
Guja Dögg Hauksdóttir forstöðumaður Byggingalistadeildar Kjarvalstaða, Margrét Harðardóttir og Steve Christer arkitektar Studio Granda og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hagfræðingur og fréttamaður .

Opnar umræður, allir velkomnir.


"If a man does not embrace his past, he has no future"

...... svo ég vitni í meistaraverk frá Hollywood.

Ég minni enn og aftur á að það var eitt hús sem brann til kaldra kola á Austurstræti, hitt húsið skemmdist óverulega. Þeir sem vilja nýbyggingar á reitnum vilja hins vegar allir sem einn trúa því að bæði húsin hafi brunnið alveg niður, auk þess þurfa þeir að losna við hressó.

Það er enginn sem hefur sérstaklega mikin áhuga á að reisa hús bara þar sem Austurstræti 22 brann, þess vegna stendur valið um að endurreisa Austurstræti 22 eða rífa 2 stór hús til viðbótar við það sem brann.


mbl.is „Verður alltaf bara stæling"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband